Stefnir á kosningar í nóvember

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í Valhöll í dag.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í Valhöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, segist ætla að beita sér fyrir því að kosið verði sem fyrst. Hann segir ríkisstjórnina hafa tapað meirihluta og að eftir samtöl við formenn annarra flokka sé ljóst að ekki náist samstaða um nýjan meirihluta. Við þær aðstæður sé ekki annað í stöðunni en að hleypa almenningi að því að kjósa.

Sagði hann á fundi í Valhöll rétt áðan að sér hugnaðist að kosið yrði í nóvember, en að samstaða um slíkt þyrfti að nást á þinginu.

„Við þurfum að endurheimta sterka ríkisstjórn fyrir Íslands, sem ekki leggst flöt í vindi eins og strá. Slík stjórn gæti gefið fólkinu í landinu þá tilfinningu að verið væri að sjá um málin. Ég sé ekki líkur á að við náum slíkri stjórn með stjórn margra smáflokka, ég held að dæmin séu til að læra af því efni.“

„Það er ekkert í dag sem kallaði á að hlaupa svona til,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um þá ákvörðun Bjartrar framtíðar í nótt um að slíta stjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn. Gagnrýndi hann að stjórnin hafi ekki gefið sér tíma og velt málinu fyrir sér lengur áður en þeir fóru í rafrænar kosningar og slitu stjórnarsamstarfinu. Áður hafði hann farið yfir afstöðu sína varðandi lög um uppreist æru og ákvörðun sína um að greina ekki strax frá þeirri vitneskju sinni að faðir hans hafi skrifað undir meðmælabréf fyrir dæmdan barnaníðing þegar hann sótti um uppreist æru.

Mun beita sér fyrir að kosið verði sem fyrst

Bjarni sagðist hafa rætt við forsvarsmenn allra flokka sem sæti eiga á þingi og það hefðu orðið honum vonbrigði að staðan væri áþekk og hún var eftir síðustu þingkosningar.

„Við þær aðstæður er ekkert annað að  gera á Íslandi en að hleypa kjósendum að borðinu og ég mun beita mér fyrir því að það verði kosið sem fyrst. Þess vegna mun ég boða til kosninga og  mun standa að því að við getum náð sem mestri sátt á þinginu um kjördag,“ sagði Bjarni og sagðist hafa hug á að það yrði í nóvember.

Bjarni sagði að sér þætti ótrúlegt hvað  Íslendingum tækist illa að ná festu í stjórnmálum miðað við ganginn í efnahagslífinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert