Vandi bænda verður enn þyngri

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekkert sagt. Mér dettur ekkert í hug,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segist ekki hafa myndað sér skoðun á atburðum gærkvöldsins. „Og það er einlægt svar.“

Hann segir að nú sé allt í óvissu. „Ég vona að mönnum beri gæfa til að hafa ákveðna festu og láta ekki panikkástand ná tökum á sér. En nú þurfa leiðtogar flokkanna að fá tækifæri til að ræða saman.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávar- og landbúnaðarráðherra kynnti á dögunum tillögur sínar vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Í þeim var meðal annars lagt til að kaupa bændur út úr greininni. Alls er óvíst hver leiða mun málaflokkinn næstu vikur, eins og gefur að skilja.

Haraldur var formaður Bændasamtaka Íslands frá árunum 2004 til 2013. Aðspurður segist hann hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin, gagnvart bændum. „Þetta mál var í mjög slæmri stöðu en vandi þessara manna verður núna enn þyngri.“

Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins er í þann mund að hefjast en ekkert hefur heyrst frá forystu flokksins frá því í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert