Vilja rannsaka málið fyrir kosningar

Þorsteinn segir flokkinn ganga óhræddan til kosninga.
Þorsteinn segir flokkinn ganga óhræddan til kosninga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismála, segir almenning og þolendur kynferðisbrota eiga það skilið að fá allar upplýsingar upp á borð í málum Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmdra barnaníðinga sem fengu uppreist æru á síðasta ári. Blaðamaður mbl.is náði tali af honum eftir fund ráðgjafaráðs flokksins sem fór fram fyrr í dag.

„Niðurstaða fundarins var afdráttarlaus, að eini kosturinn í stöðunni væri að ganga til kosninga eins fljótt og auðið væri. Það væri hins vegar ekki síður mikilvægt að þetta alvarlega mál, sem veldur þessum trúnaðarbresti, sem veldur því að stjórnin tapar meirihluta sínum, verði rannsakað til hlítar og upplýst að fullu áður en til kosninga er gengið,“ segir Þorsteinn.

Hann á þar við mál bæði Roberts og Hjalta. Faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra skrifaði undir meðmæli fyrir þann síðarnefnda þegar hann sendi inn umsóknina. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra fékk af því veður og tjáði Bjarna það í lok júlí. Sigríður upplýsti um þetta í viðtali á Stöð 2 í gær og var það kornið sem fyllti mælinn hjá Bjartri framtíð. Í kjölfarið ákvað flokkurinn að slíta stjórnarsamstarfinu rétt eftir miðnætti í gær.

Nægur tími til að rannsaka málið

„Tillaga Viðreisnar er að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki málið upp og kalli eftir upplýsingum og fái þær upp á borð. Bæði almenningur og ekki síst þolendur þessara brota eiga það skilið. Ég tek skýrt fram að við ætlum ekki að vera með neina sleggjudóma um hvernig á málum hafi verið haldið. En í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í gær, að dómsmálaráðherra og forsætisráðherra vissu af því í sumar hve forsætisráðherra væri nátengdur málinu, þá er full ástæða til að velta við hverjum steini og að málið sé upplýst að fullu áður en gengið er til kosninga.“

Þorsteinn telur ef kosið verði nóvember, líkt og forsætisráðherra talaði um á blaðamannafundi í Valhöll í dag, þá ætti að vera nægur tími til að ljúka rannsókn málsins.

Hann segir í raun engan annan kost hafa verið í stöðunni en að ganga til kosninga. „Viðreisn var stofnuð til að berjast fyrir kerfisbreytingum í þjóðfélaginu. Við mynduðum þá ríkisstjórn sem við töldum skynsamlegastan kost á þeim tíma og í raun þann eina sem var raunhæfur eftir síðustu kosningar.“

Þorsteinn segir flokkinn ganga óhræddan til kosninga. „Við vitum að við höfum unnið ötullega að þeim málefnum sem við börðumst fyrir í þessari ríkisstjórn þó stuttur tími sé liðinn. Við kvíðum því ekki að mæta dómi kjósenda í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert