„Ævintýralega veik“ ríkisstjórn

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Bjarni hlýtur að fara til Bessastaða strax í dag. Það er óhugsandi að Bjarni láti daginn líða án þess að hann geri það,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is, spurður hvað hann telji að nú taki við.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er fallin eftir ákvörðun stjórnar Bjartrar framtíðar í gærkvöldi um að slíta samstarfinu. Hann segir að væntanlega muni forseti Íslands fara þess á leit við Bjarna og aðra ráðherra að þeir sitji áfram í starfsstjórn. Hann muni svo sjálfur ræða við formenn allra flokka og meta hvort hægt er að mynda annan meirihluta á núverandi þingi. Að öðrum kosti þurfi að rjúfa þing og boða til kosninga strax í haust.

Spurður hvaða atburðarráðs hann telji líklegasta svarar Eiríkur því til að í ljósi þess hve stutt er frá kosningum væri eðlilegt að mynda nýja ríkisstjórn. Hann segir að þessi ríkisstjórn hafi verið „ævintýralega veik“ enda hafi menn í tvígang reynt að stofna til hennar áður en það hafi tekist. Allar aðrar ríkisstjórnir hafi reynst ómögulegar.

Eiríkur bendir á að stjórnmálamennirnir sjálfir hafi í dag talað þannig að líklega verði farið í kosningar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hlýtur að fara til Bessastaða í dag, …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hlýtur að fara til Bessastaða í dag, að mati Eiríks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Náðu ekki mörgum málum í gegn

Eiríkur segist hafa greint að Bjartri framtíð hafi verið farið að líða illa í ríkisstjórnarsamstarfinu. Stór mál hafi verið fram undan. „Maður hefur tekið eftir því að það var ekkert samræmi á milli þess hvernig þau töluðu í kosningabaráttunni og svo gjörðum ríkisstjórnarinnar.“ Hann segir að Björt framtíð hafi verið veikasta aflið í ríkisstjórninni og að svo virðist sem flokkurinn hafi ekki náð mörgum af sínum málum í gegn í samstarfinu. Fram hjá því sé ekki hægt að líta.

Þriðja stjórnin í röð sem fellur

Ríkisstjórnin sem nú er sprungin er sú þriðja í röð sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Eiríkur segir að sú hafi eitt sinn verið tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þótt öflugasta vígið – öruggastur í samstarfi. „Nú hafa þrjár í röð fallið. Það er dálítið stórt. Og það í samstarfi við alla flokka, nema VG og Pírata.“ Hann segir að svo virðist sem minna þurfi nú til að sprengja ríkisstjórnir en áður. Síðasta ríkisstjórn hafi, eins og nú, fallið á máli sem öðrum þræði var siðferðilegt. Þá vísar hann til Panama-málsins. Athygli veki að það séu ekki stór stefnumál sem sundri þessum ríkisstjórnum.

Það kemur Eiríki ekkert á óvart að þessi ríkisstjórn hafi fallið. Lífvænleiki hennar hafi verið mjög veikburða, þegar til hennar var stofnað. „En ég hefði ekki nokkurn tímann getað séð fyrir að hún félli á svona máli,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert