„Við erum eins tilbúin og nokkur getur verið“

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er orðinn fastur liður að mæta hingað og ræða kosningar. Þetta er bara „dejá vu“ eins og sagt er,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er hún gekk inn á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Hún segist ekki eiga von á því að þing verði starfandi fram að kosningum. Þá segir Katrín sig og sinn flokk ganga reiðubúin til kosninga og hugnast vel að boðað verði til kosninga 4. nóvember.

„Ég held að það sé bara fínn dagur. Við vorum mjög opin fyrir annaðhvort 28. október eða 4. nóvember en teljum eins og ég segi að það skipti ekki öllu máli hvor dagurinn verði fyrir valinu,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að loknum fundinum með forseta.

Kosningar augljósasti kosturinn

 „Við höfum auðvitað átt samtöl, ýmis samtöl, en í raun og veru eins og ég sagði bara strax í gærmorgun þá er augljósi kosturinn í þessari stöðu að ganga til kosninga. það er heiðarlegast og hreinlegast og það er bara niðurstaðan sem stefnir í,“ sagði Katrín, spurð hvort einhverjar þreifingar hafi verið meðal flokka stjórnarandstöðunnar um að reyna að mynda nýja ríkisstjórn, án þess að boðað yrði til kosninga.

„Að sjálfsögðu töluðum við saman og fórum yfir stöðuna en eins og ég segi, þetta var hinn augljósi valkostur,“ segir Katrín. Hún segir fundinn með forseta hafa verið góðan en Katrín fundaði með Guðna Th. í um 30 mínútur.

„Það er alltaf gaman að ræða við forsetann um stjórnmálaástandið og það var það sem við vorum í raun og veru að gera bara,“ segir Katrín sem er tilbúin að hefja kosningabaráttu.

„Við erum eins tilbúin og nokkur getur verið, við erum auðvitað búin að vera að nýta tímann til þess að vera í mjög öflugu málefnastarfi og vinnu og erum með landsfund bara í byrjun október þannig að við verðum held ég vel nestuð inn í kosningabaráttu.“

Hæpið að þingið verði starfandi

Spurð um framhaldið í pólitíkinni næstu daga og vikur fram að kosningum sagðist Katrín ekki eiga von á því að þingið verði að stöfum enda verði lögð fram þingrofstillaga.

„Það verður lögð fram þingrofstillaga og eins og ég segi situr þessi starfsstjórn og það verða væntanlega ekki nein störf á þinginu nema eitthvað komi upp á. Flokkarnir fara væntanlega að undirbúa sig og það er heljarinnar vinna,“ sagði Katrín.

Eftir síðustu kosningar hófust erfiðar stjórnarmyndunarviðræður sem tóku langan tíma áður en Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn tókst að mynda eins manns meirihluta. Katrín kveðst binda vonir við að betur gangi að loknum nýjum kosningum.

„Við munum bara horfa á það að vera reynslunni ríkari og vonandi höfum við lært eitthvað af þeirri reynslu sem var ekkert auðvelt svo að maður segi það bara heiðarlega. Ég held að það sem að skipti mestu máli sé að flokkarnir geri það upp við sig fyrir kosningar hvaða málamiðlanir þeir eru reiðubúnir að gera og nálgast málin dálítið á þessum breiða grunni að ríkisstjórn snýst ekki bara um flokkana sem að í henni sitja heldur líka breiðara samstarf á Alþingi,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert