„Mitt hjarta slær auðvitað til vinstri“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hlakka til eins og lítið barn hlakkar til jólanna,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er hann var spurður hvernig honum hugnist að ganga til kosninga þann 4. nóvember næstkomandi.

Logi gekk síðastur formanna stjórnmálaflokkanna á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta á Bessastöðum í dag en forsetinn hefur frá því klukkan ellefu í morgun átt fundi með leiðtogum allra þeirra flokka sem sæti eiga á þingi.

„Eins og staðan er í dag þá er langlíklegast að það verði bara kosið 4. nóvember,“ segir Logi. „Eini gallinn á því er að þetta fer upp á sömu helgi og Airwaves er, annars er þetta bara góður dagur held ég,“ bætir hann við léttur í bragði.

Enginn kosningabandalög ákveðin fyrirfram

Hann segir Samfylkinguna ekki ætla að gefa nokkuð út varðandi það hvort flokkurinn útiloki fyrirfram samstarf við einhverja flokka eða hvort til greina komi að mynda einhver kosningabandalög fyrir fram. Slíkt hafi ekki verið rætti. „Við ætlum ekki að gefa neitt svoleiðis út núna, við munum hins vegar ekki fara í stjórn með flokkum sem setja á oddinn mannfjandsamleg viðhorf,“ sagði Logi.

„Mitt hjarta slær auðvitað til vinstri og svo sannarlega myndi ég frekar óska þess að setjast í ríkisstjórn undir forsæti til dæmis Katrínar Jakobsdóttur heldur en einhvers annars.“

Sérkennilegt verði fyrir ráðherra að sitja í starfsstjórn

Inntur eftir afstöðu sinni til þess að starfsstjórn fari með stjórn landsins þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð að loknum kosningum segir Logi: „Það er sérkennilegt fyrir þessa ráðherra sem hafa verið í skylmingum og bardögum seinustu daga að sitja hlið við hlið og haldast í hendur.“

Þetta verður í fyrsta sinn sem Logi mun leiða Samfylkinguna inn í kosningar sem formaður flokksins og segir hann það leggjast vel í sig. Þá mun framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar koma saman á morgun og ræða hvort flokkurinn muni halda landsfund í aðdraganda kosninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert