Nöfn afmáð úr gögnum um uppreist æru

Gögn í máli þeirra sem fengu uppreist æru á síðasta …
Gögn í máli þeirra sem fengu uppreist æru á síðasta ári hafa verið afhent fjölmiðlum mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dómsmálaráðuneytið hefur afhent mbl.is gögn er varða mál þeirra sem veitt var uppreist æra á árinu 2016, en áður höfðu gögn í máli Roberts Downey verið afhent. Um er að ræða fjóra einstaklinga, en nöfn tveggja þeirra hafa verið afmáð í gögnunum. Þær skýringar fengust hjá dómsmálaráðuneytinu að ekki verði veittur aðgangur að gögnum er varða brotamenn þegar dómstóll hefur ákveðið að dómur skuli birtur án nafns. Nöfn meðmælenda koma hins vegar fram.

Annað nafnið sem afmáð hefur verið er nafn Hjalta Sigurjóns Haukssonar, sem dæmdur var árið 2004 dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota stjúpdóttur sína. Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra var einn þeirra sem veittu honum meðmæli þegar hann sótt um uppreist æru. 

Benedikt sendi frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem hann sagði að það sem hafi átt að vera lítið góðverk við dæmdan mann hefði snúist upp í framhald harmleiks brotaþola. „Á því biðst ég enn og aftur afsökunar,“ sagði Benedikt.

Þá gaf Sveinn Eyjólfur Matthíasson, fyrrverandi starfsmaður hjá hópferðabílafyrirtækinu Kynnisferðum, Hjalta einnig meðmæli. Umsókninni fylgdi jafnframt bréf frá Haraldi Teitssyni, framkvæmdastjóra hópferðabílafyrirtækisins Teits Jónassonar, sem sagði Hjalta hafa verið færan bílsstjóra og vel liðinn af farþegum. Sá síðarnefndi tók þó fram í bréfi sínu að fyrirtækið hefði ekki séð sér fært að hafa Hjalta áfram í vinnu vegna hótana sem bárust um frá hópnum Stöndum saman, en um er að ræða hóp sem heldur úti vefsíðu með upplýsingum um dæmda barnaníðinga.

Annar þeirra sem nafngreindur er í gögnunum er Sigurður Á Þorvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður í körfuknattleik, sem fékk árið 2011 tveggja ára fangelsisdóm fyrir að hafa nauðgað 17 ára stúlku. Dómurinn mat brotið alvarlegt og að það hefði valdið stúlkunni miklum og varanlegum miska. Í því sambandi var sér­stak­lega bent á að stúlk­an byggi í litlu sam­fé­lagi sem magnaði upp áhrif­in.

Tvö meðmælabréf fylgja umsókn Sigurðar um uppreist æru. Frá Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells í körfubolta. Hann segir Sigurð hafa verið stór partur af liðinu og hafi „verið til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Í bréfinu segir að Sigurður hafi verið hjá félaginu bæði fyrir og eftir dóminn og að ef „hægt væri að skrifa bók um hvernig fólk á að koma sér aftur út í lífið þá er saga Sigurðar Ágústs kjörin til þess.“ Þar segir jafnframt að eftirsjáin og iðrun sé algjör.

Grétar Daníel Pálsson segir í bréfi sínu að hann hafi bæði unnið með Sigurði í félagsstarfi tengdu íþróttum og starfað með honum hjá Rarik. Grétar segir einnig að iðrun og eftirsá Sigurðar sé mikil og að þeir hafi átt samtal um orsök og afleiðingar dómsins.

Hinn er Bjarni Hrafnkelsson sem hlaut 18 mánaða dóm árið 2008 fyrir aðild sína í Pólstjörnumálinu svokallaða. Um var að ræða tilraun til stórfellds fíkniefnainnflutnings með skútu sem kom að landi við í Fárskrúðsfirði.

Tvö meðmælabréf fylgja einnig umsókn Bjarna. Annað er frá Gylfa Kjartanssyni háseta sem ber honum vel söguna. Hitt er frá Steingrími Bjarna Erlingssyni sem segist hafa þekkt Bjarna og fjölskyldu hans frá fæðingu. Hann lýsir honum sem fallega innréttuðum einstakling.

Í ráðuneytinu er verið að taka saman gögn um alla þá sem hafa fengið uppreist æru frá árinu 1995, og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að þau gögn verði afhent eins fljótt og auðið er. Alls hafa 32 einstaklingar fengið uppreist æru frá árinu 1995.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert