Kosningar leggjast vel í Íslensku þjóðfylkinguna

Guðmundur Þorleifsson, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar
Guðmundur Þorleifsson, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar Ljósmynd/Aðsend

„Okkur líst alltaf mjög vel á kosningar, það er stutt í kosningar og við þurfum bara að bretta upp ermar og taka stöðuna. Við stefnum á framboð og ég held að það verði ekki stórt vandamál að manna lista í öllum kjördæmum. Við erum með kosningarkaffi á morgun og höfum verið með opið hús tvisvar í viku þar sem skemmtilegur klúbbur hittist,“ segir Guðmundur Þorleifsson, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Aðspurður um atburði síðustu daga segir Guðmundur málið fyrst og fremst sorglegt gagnvart brotaþolum þeirra sem hafa fengið uppreist æru. „Það síðasta sem við myndum gera er að taka upp hanskann fyrir barnaníðinga og allt varðandi uppreist æru eru algjörlega fáránlegt gagnvart slíkum mönnum. En það sem að Björt framtíð setur fram sem stjórnarslit er hreinn fyrirsláttur og algjört ábyrgðarleysi af þeirra hálfu en nú verður bara þjóðin að dæma hvernig þeim finnst þetta framtak hjá þeim.“

„Við verðum í öllum málum og erum með málaflokk og málaskrá í öllum málum. Í síðustu kosningum lögðum við mikið upp úr útlendingamálunum og það sem við vöruðum við þá hefur allt komið fram ef menn eru sanngjarnir. Til dæmis hvað þetta kostar, það er spurning hvað menn vilja hafa opin landamæri. Ég held að það væri sniðugt hjá okkur að segja okkur úr EES og gera frekar tvíhliða samninga við þá, tala nú ekki um eftir að Brexit hefur litið dagsins ljós. Ég tel að það sé réttara fyrir íslenska samfélagið að gera tvíhliða samninga, ekki eingöngu við ESB heldur einnig við bandaríkin og lönd til að tryggja breiðari körfu fyrir útflutning,“ segir Guðmundur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert