„Sennilega heimsmet í vitleysu“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Ég var einn af þeim skeptísku þegar ríkisstjórnin var mynduð í byrjun árs. Að fara í eins manns meirihlutastjórn með tveim smáflokkum með ekkert bakland, þar sem nánast allir innanborð voru reynslulausir, hlyti að skapa vanda.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag um þá ákvörðun Bjartrar framtíðar að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. „Svo væri ekki vænlegt til árangurs að leggja lag sitt við flokka sem pikka upp af samfélagsmiðlunum mál sem þeir halda að séu til vinsælda fallið. Í þeim efnum komst BF að vísu ekki með tærnar þar sem Viðreisn var með hælana. Er eins og enginn ætli að læra af óförum Samfylkingarinnar.“

Brynjar segir að það sé sennilega heimsmet í vitleysu hvernig Björt framtíð hafi slitið stjórnarsamstarfinu. Í það minnsta þar til Viðreisnarmenn hafi farið mað „opna munninn“ daginn eftir. „Einhverjir myndu segja að aðeins fullkomin flón myndu álykta að ráðherrar og aðrir þurfi að víkja fyrir það eitt að fara að lögum og reglum. Þegar lög og reglur henta ekki einhverjum heitir það núna spilling og leyndarhyggja.“

Þá sé það þyngra en tárum taki „að horfa upp á gamla félaga úr Sjálfstæðisflokknum komna í hóp með Pírötum og öðrum upphlaupslýð. Íslensk þjóð þarf kjarkmikla stjórnarmálamenn sem geta tekið vindinn í fangið en lyppast ekki niður þótt á móti blási. Nú er svo komið að stjórnmálin eru í fullkominni upplausn sem er engum til gagns og allra síst þjóðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert