Verða kosningar 4. nóvember?

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum að hann hefði beðist lausnar fyrir ríkisstjórn sína sem forsetinn hefði samþykkt.

Bjarni sagði ennfremur að stefnt væri að því að þingkosningar færu fram 4. nóvember. Ríkisstjórnin mun sitja áfram sem starfsstjórn. Bjarni hefur sagt að hann telji ekki að Björt framtíð eigi að eiga aðild að stjórninni í ljósi þess að hún hafi sagt sig frá henni.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 3.-5. nóvember eða sömu helgi.

„Ég gekk rétt í þessu á fund forseta og baðst lausnar fyrir mitt ráðuneyti, forsetinn hefur fallist á þá beiðni og óskar um leið eftir því að ráðuneytið starfi áfram þannig að nú tekur við strafsstjórn þar til að mynduð hefur verið ný ríkisstjórn í landinu,“ sagði Bjarni er hann gekk út af fundi forsetans. Ný ríkisstjórn verði mynduð að loknum kosningum sem Bjarni vill vinna að að farei fram þann 4. nóvember á þessu ári.

Ræddu atburði stjórnmálanna undanfarin ár

„Það eru þeir ráðherrar sem hafa setið í ríkisstjórninni. Venju samkvæmt þegar að ríkisstjórn biðst lausnar að þá eru ráðherrar, hver í sínu ráðuneyti, beðnir um að sitja áfram,“ sagði Bjarni spurður hverjir myndu starfa í starfsstjórninni.

„Ég lít þannig á í raun og veru að menn verði að rísa undir þeirri ábyrgð og þeirri skildu að sinna málefnum í sínum ráðuneytum við þær aðstæður sem skapast þegar að ríkisstjórn fær lausn.“

Fundur Bjarna og Guðna Th. varði í um 40 mínútur og ræddu þeir meðal annars þá atburði sem hafa átt sér stað í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum að sögn Bjarna. Hann og forseti séu sammála um það að vinna beri að því að fá meiri festu í stjórnarfarið.

 „Við ræddum meðal annars um það hvenær hægt væri að ganga til kosninga og hversu mikilvægt væri að það skapaðist engin óvissa núna við þessar aðstæður og ég vil leggja mitt af mörkum til þess að eyða allri óvissu og einfaldlega ganga til kosninga og fá niðurstöður fyrir nýtt þing,“ sagði Bjarni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert