Viska mömmu víða í mínum fræðum

Guðni Gunnarsson.
Guðni Gunnarsson. Eggert Jóhannesson

„Hann er raunverulegur gúrú, ekki feik,“ segir kollegi minn við mig þegar ég er á leiðinni út úr dyrunum að hitta Guðna Gunnarsson, manninn sem færði Íslendingum hið vinsæla rope yoga en einnig nýja andlega nálgun á heilrækt þar sem hann hefur kennt fjölda Íslendinga að beina athygli sinni og orku í nýjan farveg. Yfirskrift þeirrar speki er „máttur athyglinnar“.

Þessi orð um að Guðni sé raunverulegur gúrú eru ekki bara orð kollegans heldur hafa skjólstæðingar hans verið forstjórar stórra fyrirtækja og alþjóðlegar stórstjörnur sem hafa getað valið úr hverri þeirri þjálfun sem hefur verið í boði en þeir valið Guðna. Má þar nefna leikkonuna Kim Basinger og Brandon Routh sem lék meðal annars Súperman en hann var skjólstæðingur Guðna meðan á vinnu við þá mynd stóð.

Ég segi Guðna að hann hafi þetta orð á sér og hann fer að hlæja og segir að starf hans snúist um að minna fólk á vitneskju sem það búi sjálft yfir, innst inni.

„Ég næ til fólks sem er tilbúið að láta ná til sín. Ég dæmi engan en hef mikla reynslu og sé þjáninguna sem fólk hefur búið sér til. Það er ekki til þjáning nema heimatilbúin og snýst um viðhorf. Fólk á nefnilega val um tvö viðhorf; að líta á eitthvað sem vandamál eða tækifæri, blessun eða böl. Við búum á Íslandi sem er í raun og veru besta land í heimi, það er hvergi nokkurs staðar svona velsæld, friður, rými, loft og vatn og fullt af möguleikum en við förum á mis við það því við erum föst í því að tilveran eða aðrar manneskjur séu að gera okkur eitthvað.

Flestar manneskjur hafa þá á hreinu hvað þær vilja ekki en vita í raun mjög lítið um hvað þær vilja. Þær vona og langar og ætla en vilja ekki. Vilji er nefnilega verknaður og ef við veitum því athygli sem við viljum ekki þá vex það og dafnar. Ég hef aldrei hitt hjarta sem þekkir ekki þennan veruleika sem ég er að tala um. Svo hef ég hitt fullt af höfðum sem vilja ekki heyra þetta því óttinn yfirgnæfir hjarta þeirra.“

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina er kafað ofan í fræði Guðna og lesendum leyft lesendum að fá forsmekk af því sem hefur heillað svo marga en einnig er fjallað um persónu hans og forsögu.

Varð veik af fyrstu sopunum

 „Oft er grínast með að Keflvíkingar séu djarfir villingar á annarri bylgjulengd, en við ólumst líka upp við önnur skilyrði. Við höfðum sérstakan aðgang að tónlist og bjór var eðlilegur hlutur. Bróðurpartur þess smygls sem barst til landsins kom til Keflavíkur með togurum. Þetta var því svolítið lúxussjóræningjaþorp og ekkert sem þú gast ekki fengið og allt var mögulegt. Á sama tíma ólst ég upp við mikla neyslu. Pabbi var sjómaður, vann mikið og drakk illa og systkini mömmu voru líka öll í neyslu. Mín fyrstu ár sem barn gengu út á að hirða systkini hennar upp af götunni, lappa upp á þau og horfa svo á þau detta aftur í það.

Sumir eru veikari fyrir en aðrir og mamma, sem var ofsalega góð manneskja, byrjaði að drekka seint. Það hafði hún aldrei ætlað að gera en hún varð strax hreinlega veik af fyrstu sopunum. Á endanum varð hún sér að bana. Ég hafði þá horft á þessa yndislegu konu tærast upp. Hún var mikill meistari, kenndi mér allt um ást og heiðarleika og visku mömmu má finna víða í mínum fræðum.“ Faðir Guðna setti síðar tappann í flöskuna og gerðist öflugur liðsmaður SÁÁ síðustu 30 ár ævi sinnar.

„Það er oft talað um að hlutir gangi í erfðir en ég held því fram að slíkt sé ekki líkamlegt heldur huglægt, við erfum sögurnar. Ég hef ekki reynt að einhver sé genetískt líklegri en annar til að verða fyllibytta. En mamma var bara búin á því. Búin að bjarga fólki í kringum sig á steyttum hnefa og svo þegar hún opnaði flöskuna gleypti flaskan hana.“

Vissi snemma að hann bæri ábyrgð

Hvernig vannstu úr þessari tilveru?

„Maður lokaði sig af tilfinningalega og varð vélrænn að einhverju leyti. Áræðinn, kaldur töffari. Þegar ég var 16 ára áttaði ég mig á að ég var orðinn hættulegur sjálfum mér. Ég var það ástríðufullur og áræðinn að ég áttaði mig á að ef ég gripi ekki í hnakkadrambið á mér biði mín ekkert annað en volæði. Ég fór að vinna í því að skilgreina tilvist mína og 18 ára gamall ákvað ég að drekka ekki áfengi fyrr en ég hefði þroska til, fann að ég var að hella upp á ótta. Ég var svo kominn út í lífið snemma og farinn að bjarga mér, átti von á barni 18 ára og hóf að byggja tveggja hæða hús 19 ára.“

Þú ákveður að þú viljir ekki erfa sögurnar?

„Þegar ég legg af stað út í lífið liggur minn metnaður í því að verða ekki eins og foreldrar mínir. Sem gerði það að verkum að ég hlaut að verða þannig því með þetta í huganum, að ætla að sanna að ég væri betri en þau, er sjálfsmynd mín brotin. Þú ert ekki hugsanir þínar en þú verður það sem þú hugsar um. Þegar þú hugsar um það sem þú vilt ekki þá viltu það. Þetta hljómar svolítið afstætt en athygli er ljós eða líf og þegar þú veitir einhverju athygli ertu að gefa því líf, ég var að gefa þessari ímynd um það sem ég ætlaði ekki að verða líf. Það er það sem máttur athyglinnar gengur út á. Þú lærir að skilja að þú mátt verja orku þinni eins og þú vilt; þú getur varið henni í að búa til fallegt musteri og yndislegt líf en getur líka eytt henni í að búa til mjög bágborið erfitt líf.“

Ítarlegt viðtal birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert