Aftur tími óstöðugleikans

Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli …
Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli barnaníðings sem fékk uppreist æru. mbl.is/Eggert

Á síðustu átta árum hafa þrjár ríkisstjórnir sprungið vegna ágreinings samstarfsflokka áður en kjörtímabilinu er lokið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að þeim öllum. Þar á undan urðu síðast stjórnarslit vegna innbyrðis ágreinings haustið 1988. Á tíunda áratugnum og fyrstu áratugum þesarar aldar ríkti aftur á móti stöðugleiki í íslenskum stjórnmálum. Sama er að segja um viðreisnarárin 1959 til 1971, en óstöðugleiki einkenndi áttunda og níunda áratuginn með undantekningum þó og öll árin frá lýðveldisstofnun fram að myndun viðreisnarstjórnarinnar.

Þrjár stjórnir sprungið

Stjórn Bjarna Benediktssonar, sem tók við 11. janúar þetta ár, hafði ekki setið nema í 247 daga þegar hún missti meirihlutastuðning á þingi í fyrrakvöld. Einn stjórnarflokkanna, Björt framtíð, sleit samstarfinu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli barnaníðings sem fékk uppreist æru.

Stjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, mynduð 23. maí 2013, sat í tæp þrjú ár. Hún hrökklaðist frá völdum í kjölfar uppnáms í þjóðfélaginu og ágreinings stjórnarflokkanna eftir uppljóstrun um leynilegan aflandsreikning sem forsætisráðherra var tengdur.

Stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar undir forsæti Geirs H. Haarde, mynduð 24. maí 2007, sat í eitt ár og átta mánuði. Upp úr samstarfinu slitnaði vegna samstarfsörðugleika í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Samfylkingin krafðist þess að fá stjórnarforystuna ef samstarfið ætti að halda áfram, en á það gátu sjálfstæðismenn ekki fallist.

Stöðugleiki viðreisnar- og Davíðsstjórna

Á viðreisnarárunum, tíma Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri, og síðan á tíunda áratugnum og fyrstu árum þessarar aldar, tíma Davíðs Oddssonar, skapaðist sú ímynd að Sjálfstæðisflokkurinn væri kletturinn í íslenskum stjórnmálum. Með þátttöku hans í landsstjórninni væri stjórnarfesta tryggð. Óhætt mun að segja að þetta eigi ekki lengur við eins og Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur benti á í samtali við mbl.is í gær.

Ríkisstjórnir sem setið hafa á lýðveldistímanum frá 1944 hafa verið misjafnlega langlífar. Fram að viðreisnarstjórninni, sem mynduð var í nóvember 1959, hafði engin ríkisstjórn náð að sitja heilt kjörtímabil Alþingis. Viðreisnarstjórnin sat í þrjú kjörtímabil, í tólf ár samfleytt. Eftir það varð aftur los á úthaldi ríkisstjórna fram til 1991, ef stjórnir Geirs Hallgrímssonar frá 1974 til 1978 og Steingríms Hermannssonar frá 1983 til 1987 eru undanskildar. Þá sat ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í heilt kjörtímabil frá 2009 til 2013. Eftir það má segja að lausungin hafi á ný hafið innreið sína í íslensk stjórnmál.

Geir H. Haarde skýrir fjölmiðlum frá stjórnarslitum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar …
Geir H. Haarde skýrir fjölmiðlum frá stjórnarslitum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í Alþingishúsinu 25. janúar 2009. Samfylkingin krafðist stjórnarforystu ef samstarfið ætti að halda áfram. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óstöðugleiki á áttunda og níunda áratugnum

Fyrir tæpum 30 árum, haustið 1988, sprakk þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokksins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins undir forsæti Þorsteins Pálssonar. Hún hafði aðeins setið í rúmt ár. Stjórnarflokkana greindi á um skattkerfisbreytingar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var með tillögur sem samstarfsflokkarnir gátu ekki fallist á. Rúmum áratug fyrr, í október 1979, ákváðu alþýðuflokksmenn að draga sig út úr samsteypustjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Ástæðan var óánægja með samstöðuleysi innan stjórnarinnar um úrlausn efnahagsmála. Stjórnin hafði aðeins setið í rúma 13 mánuði.

Efnt var til alþingiskosninga í kjölfar stjórnarslitanna 2009 og 2016. Einnig árið 1979. Það var hins vegar ekki gert 1988 heldur tóku þá stjórnarandstöðuflokkar sæti í ríkisstjórn í stað Sjálfstæðisflokksins. Hvað nú verður er enn of snemmt um að spá.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert