Búið að tengja 85% barna við foreldra

Búið er að tengja um 85% barna undir 18 ára …
Búið er að tengja um 85% barna undir 18 ára við foreldra sína. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búið er að tengja um það bil 85% barna undir 18 ára við foreldra sína í Þjóðskrá. Þetta kemur fram í svari Þjóðskrár Íslands við fyrirspurn mbl.is en um er að ræða átak sem ráðist var í til samræmis við þingsályktunartillögu um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra.

Þingsályktunartillagan var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014. Hún fól í sér ályktun Alþingis um að fela ríkisstjórninni að sjá til þess „að í almannaskráningu á Íslandi verði skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns við aðra foreldra svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. janúar 2016.“

Til að mæta þingsályktunartillögunni var sett af stað verkefni hjá Þjóðskrá Íslands til að ná utan um alla foreldra barna yngri en 18 ára. Í því verkefni felst að skrá hverjir eru lögformlegir foreldrar barns óháð lögheimili, að því er fram kemur í svari Þjóðskrár.

„Ekki fer fram sérstök skráning á umgengnissamningum sem gerðir eru fyrir sýslumanni eða dómstólum og er ekki kveðið á um það í lögum að skrá slíka samninga í þjóðskrá,“ segir enn fremur í svarinu.

Uppýsingar úr skráningunni eru birtar á Mínum síðum á slóðinni www.island.is og getur einstaklingur sem hefur auðkennt sig inn á síðunni séð hvaða börn hann á samkvæmt gögnum Þjóðskrár.

Samtök umgengnisforeldra hafa kært ákvörðun Þjóðskrár að hafna beiðni samtakanna um upplýsingar um nöfn og kennitölur umgengnisforeldra en í svari Þjóðskrár við fyrirspurn mbl.is segir m.a.:

Þessum upplýsingum er ekki miðlað til annarra en foreldra þar sem að ekki eru fyrirliggjandi reglur eða lagaheimildir til slíkrar miðlunar. Ef slík heimild verður veitt verður farið í verkefni við að útfæra miðlun í samræmi við þær reglur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert