„Ég held að ég tóri í vetur“

Félagar í stórsveit djassleikara heiðruðu Árna Ísleifs á afmælistónleikum í …
Félagar í stórsveit djassleikara heiðruðu Árna Ísleifs á afmælistónleikum í Gerðubergi í gær. Árni lék nokkur lög ásamt stórsveitinni. mbl.is/Árni Sæberg

Djasspíanistinn þjóðkunni Árni Ísleifsson er níræður í dag. Hann hélt upp á afmælið með tónleikum í Gerðubergi í gær þar sem hann tók nokkur lög með stórsveit djassleikara sem eru í Félagi íslenskra hljómsveitarmanna.

Árni er aldursforseti sveitarinnar og leikur á trompet sem hann fór ekki að æfa á fyrr en á sjötugsaldri. „Við komum saman einu sinni í viku yfir vetrartímann og æfum okkur,“ segir hann og getur ekki hugsað sér að hvíla sig á tónlistinni sem hefur verið líf hans og yndi í meira en 70 ár. Hann lætur sér ekki nægja að æfa með stórsveitinni því hann er píanóleikari Gerðubergskórsins sem æfir tvisvar í viku og heldur reglulega tónleika á hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum aldraðra.

„Ég held að ég tóri alla vega í vetur,“ segir Árni léttur í lund þegar hann er spurður hvort hann sjái fyrir sér tónleika á 100 ára afmælinu eftir tíu ár. Hann fagnar góðri heilsu og segist vera mjög sáttur við það að geta haldið áfram að vera virkur í tónlistarlífinu.

Langur ferill

Tónlistarferill Árna er orðinn langur. Hann byrjaði árið 1945 sem píanisti hjá fyrstu alíslensku djasshljómsveitinni sem Björn R. Einarsson stjórnaði. Hún lék m.a. í Listamannaskálanum og Breiðfirðingabúð. Eftir að Árni hætti með Birni lék hann með fjölda hljómsveita og flestum stjórnaði hann sjálfur, samdi og útsetti. Urðu mörg laga hans afar vinsæl, „smellir“ eins og það heitir í dag. Með Árna léku margir fremstu hljóðfæraleikarar landsins og er margt af því varðveitt á hljómplötum. Nefna má að Árni var í hljómsveit Svavars Gests um skeið, var með hljómsveit á gamla Röðli á sjötta áratugnum, með hljómsveit í Þjóðleikhúskjallaranum, Silfurtunglinu, Tjarnarkaffi, Naustinu, á Hótel Borg og í gamla Tívolí í Vatnsmýrinni. „Fáir íslenskir tónlistarmenn eru með jafn fjölskrúðugan og vel heppnaðan feril að baki og Árni Ísleifsson,“ segir Vernharður Linnet, helsti djasssérfræðingur landsins, sem segir að Árni sé líka mjög góður lagahöfundur.

Með kennarapróf

Árni er Reykvíkingur, sonur Ísleifs Árnasonar, borgardómara og prófessors, og Soffíu Gísladóttur Johnsen. Hann ólst upp við Túngötu, Bergstaðastræti og í Norðurmýri, og var í sveit í Móbergi í Langadal. Hann brautskráðist frá Verslunarskólanum 1946, var í einkatímum í píanóleik hjá Matthildi Matthíasson, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar Tónskóla þjóðkirkjunnar, var í einkatímum í píanóleik hjá Gísla Magnússyni og Rögnvaldi Sigurjónssyni. Seinna lauk hann kennaraprófi og tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann er kvæntur Kristínu Axelsdóttur.

Djasshátíðin efst í huga

Þegar horft er um öxl segist Árni einna ánægðastur með að hafa stofnað til Djasshátíðar Egilsstaða árið 1988, en henni stjórnaði hann í nær tvo áratugi. Þangað komu margir helstu djassleikarar, íslenskir sem og aðrir norrænir. Djasshátíðin var hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi og er enn haldin á hverju ári við góðan orðstír. Hún hefur haft mikil áhrif á tónlistarlíf á Austurlandi.

Á Egilsstöðum kenndi Árni við Tónlistarskólann frá 1977 til 1999 og ekki bara á píanó heldur líka á gítar og blokkflautu og ennfremur tónfræði. Að auki sá hann um tónmenntakennslu við grunnskólann á staðnum og stjórnaði kórnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert