Faxaflóahafnir umhverfisvottaðar

Reykjavíkurhöfn
Reykjavíkurhöfn mbl.is/Árni Sæberg

Faxaflóahafnir sf. hafa fengið vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfi sitt í samræmi við alþjóðlega umhverfisstaðalinn ISO 14001, fyrstar íslenskra hafna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum. Kjarni staðalsins er að vinna að stöðugum umbótum til að reyna að daga úr umhverfislegum áhrifum. 

Í tilkynningunni er haft eftir Ernu Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóra, að vottunin sé mikil viðurkenning á heildstæðri umhverfisstefnu Faxaflóahafna og veiti fyrirtækinu ákveðinn gæðastimpil. „Við erum virkilega stolt af því að vera fyrst íslenskra hafna til að fá þessa alþjóðlegu vottun og er það í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins að vera í fararbroddi í þessum málaflokki. Með vottuninni sýnir fyrirtækið ábyrgð á því að minnka umhverfisáhrif starfseminnar með því til dæmis að nýta auðlindir skynsamlega, stuðla að minnkun á útblæstri og minnka umfang sorps en farga því á ábyrgan hátt. Þannig má með öguðum og markvissum vinnubrögðum lágmarka áhrif á umhverfið að því leyti sem því verður við komið.“

Þá er haft eftir Gísla Gíslasyni hafnarstjóra að umhverfismál séu eðlilegt og viðvarandi viðfangsefni Faxaflóahafna og virk umhverfisstefna eðlilegur þáttur í starfseminni. Vottunin sé í senn mikil viðurkenning á stefnu fyrirtækisins og gæðastimpill á stef þess. „Það þarf mikið til að ná slíkum áfanga. Undirbúningur vottunar hefur tekið nokkurn tíma og ástæða er til að þakka starfsmönnum okkar fyrir að sinna verkefninu af áhuga og einurð. Enn frekar ber að þakka þeim fyrir að sýna því mikinn skilning að Faxaflóahafnir vilja í orði og verki leggja lóð sín á vogarskálar í þágu umhverfisins í eigin rekstri og út á við. Ánægjulegt er líka að vottunin er staðfest á aldarafmæli Gömlu hafnarinnar í Reykjavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert