Grafa Kringlumýrarbraut næst í norðurátt

Framkvæmdir standa nú yfir við Kringlumýrarbraut.
Framkvæmdir standa nú yfir við Kringlumýrarbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdir hafa staðið yfir við Kringlumýrarbraut sl. viku, en grafa þarf brautina í sundur vegna nýrrar vatnslagnar sem Veitur eru að leggja undir götuna. Búið er að leggja vatnsæð yfir akreinina til suðurs og ljúka vinnu í miðeyju götunnar, sem hefur valdið miklum umferðatöfum á svæðinu.

Á morgun, þriðjudag, mun verktakinn síðan hefjast handa við að grafa upp akbrautirnar til norðurs og klára að leggja vatnsæðina undir Kringlumýrarbrautina. Fækkar þá akreinum frá því sem nú er, úr fjórum í þrjár.

Í fréttatilkynningu frá Veitum segir að flóknasta hluta verksins; að steypa festur fyrir lögnina og tengja hana við eldri lögn sem liggur eftir miðeyjunni, sé nú lokið.

Við framhald framkvæmdanna verður umferð hagað þannig að fyrir hádegi verða tvær akreinar til norðurs og ein til suðurs en síðdegis verða tvær akreinar til suðurs og ein til norðurs. Er þetta gert til að hafa ætíð fleiri akreinar í þá átt sem umferðarþunginn er meiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert