Ítrekuð skemmdarverk á lóð Ingunnarskóla

Ingunnarskóli í Grafarholti.
Ingunnarskóli í Grafarholti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skólastjórn Ingunnarskóla í Grafarholti sendi tölvupóst til foreldra á dögunum þar sem greint var frá ítrekuðum skemmdarverkum á lóð skólans og óskað var eftir aðstoð við að líta til með skólalóðinni seinni part dags og á kvöldin.

Í samtali við mbl.is sagði Guðlaug Erla Gunnarsdóttir skólastjóri að skemmdarverkin á leiktækjunum hafi ekki staðið lengi yfir en að rúðubrot hafi verið að aukast á undanförnu ári. „Við höfum fengið að vera í friðsæld hérna á holtinu í mörg ár svo þetta er eitthvað nýtt. Við erum óhress með þetta og erum að vona að íbúasamfélagið geti tekið höndum saman í að fylgjast vel með. Ef fleiri eru á ferli þá fælir það frá þá sem eru í einhverjum svona hugleiðingum.“

„Við erum með alveg nýja skólalóð og ný leiktæki sem yngri krakkarnir eru mjög ánægðir með og öllum í skólanum finnst þetta mjög leiðinlegt. Það hefur ítrekað verið kveikt í t.d. trampólíni hjá okkur og eldur verið borinn að blaðagámi.“

Guðlaug segir lögregluna vera að vinna í málinu og sé þegar búin að ræða við einhverja einstaklinga. Auk þess sé það í skoðun hjá skólanum að setja upp öryggismyndavélar á lóðinni.

„Ég held að þetta sé nú allt að upplýsast en þetta er búið að vera þrálátt undanfarið, meira en við höfum átt að venjast. Við erum að vona að við getum náð betur utan um þetta með samtakamætti hérna í Grafarholtinu og í góðri samvinnu við lögreglu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert