Samstaða um næstu skref lykilatriði

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formenn allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa verið boðaðir á fund Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis, klukkan 12.30 í dag til að ræða framhaldið á þinginu.

Fyrst mun Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hitta forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 11 þar sem hann mun leggja fram beiðni um þingrof.

Um leið og tilkynning um þingrof kemur fram þarf að birta hana annaðhvort í Stjórnartíðindum eða á þingfundi. Að sögn Unnar Brár er líklegra að það verði gert á þingfundi.

Hún segir að ef boðað verður til kosninga þurfi Alþingi að fresta þingfundum og þá þurfi slík tillaga að koma fram á þinginu fyrir kjördag.

„Hvað gerist þarna á milli, það er okkar sem sitjum á Alþingi að ákveða það, hvort við ætlum að afgreiða einhver mál eða hvort við ætlum að láta þetta gott heita,” segir Unnur Brá.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á Bessastöðum á laugardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Engin mál í nefndum Alþingis

Óvíst er hvort samstaða náist um mikilvæg mál fyrir þingslit. „Það sem er óvenjulegt við þessa stöðu miðað við áður þegar það hefur verið þingrof og boðað til kosninga er að við erum ekki með nein máli inni í nefndum Alþingis af því að þingið var sett á þriðjudaginn og það var verið að mæla fyrir fjárlagafrumvarpinu þegar þetta gerðist,” segir hún og á við þegar slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu.

„Fjárlagafrumvarpið sjálft er ekki komið inn í nefnd, þannig að það eru engin mál í nefndum þingsins að klárast. Ef það næst samstaða um að klára einhver mál þá eru þau alveg eftir frá upphafi til enda í meðförum þingsins.”

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Ófeigur

Unnur Brá segir stöðuna því þrönga hvað þetta varðar en segir að ekkert sé ómögulegt. Lykilatriðið sé að ná samstöðu á milli flokkanna um næstu skref.

Í framhaldinu stendur til að kjósa nýtt þing. „Ég skil þetta þannig að það sé verið að reyna að flýta kosningum svo að þing geti tekið til starfa sem fyrst til þess að klára mál sem þarf að ljúka við fyrir áramót eins og fjárlög, þannig að það ætti að gefast tími eftir kosningar fyrir nýtt þing til að sinna slíkum málum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert