Tveir fyrrverandi þingmenn heitir

Páll Valur Björnsson starfar nú sem kennari. Hann íhugar nú …
Páll Valur Björnsson starfar nú sem kennari. Hann íhugar nú framboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í það minnsta tveir af þeim fyrrverandi þingmönnum sem ekki náðu kjöri í alþingiskosningum í fyrra, íhuga nú að bjóða sig fram á nýjan leik. Þetta eru Páll Valur Björnsson, sem sat á þingi fyrir Bjarta framtíð frá 2013 til 2016, og Líneik Anna Sævarsdóttir varaþingmaður en hún sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn sömu ár.

Ekki er útilokað að fleiri þingmenn sem ekki náðu kjöri í síðustu kosningum séu að huga að framboði. Þannig segir einn þeirra, að hann útiloki aldrei neitt „en þetta er ekki efst í mínum huga í augnablikinu“.

Horfir til vinstri

Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson segist í samtali við mbl.is vera að hugsa sinn gang. „Ég hef látið mér detta það í hug,“ segir hann spurður hvort hann sé á þeim buxunum að fara í framboð. Pall sat á þingi fyrir Bjarta framtíð. Hann náði ekki kjöri í fyrra og sagði sig úr flokknum í vor þar sem honum þótti flokkurinn hafa gefið allt of mikið eftir í Evrópumálum, auðlinda- og umhverfismálum, svo eitthvað sé nefnt.

Páll Valur segir að klisjan „það hafa margir komið að máli við mig“ eigi vel við núna. Hann segir þó að Björt framtíð sé of hægrisinnaður flokkur fyrir sinn smekk. Páll yrði því að finna sér nýjan flokk og horfir til vinstri. Hann viðurkennir þó að umhverfið sé ekkert mjög spennandi um þessar mundir. Hann hafi metnað til að reyna að breyta samfélaginu.

Páll Valur segir að ekkert annað hafi verið í stöðunni fyrir Bjarta framtíð en að slíta stjórnarsamstarfinu en segir þó að hann hefði fundað með forystumönnum ríkisstjórnarinnar áður en til þeirrar ákvörðunar kæmi. „Það er auðveldara um að tala en í að komast. Þrýstingurinn í samfélaginu var gríðarlegur en þetta er bara afskaplega sorglegt mál.“ Páll hefur starfar í dag sem kennari við Fisktækniskólann.

Varaþingkonan Líneik Anna Sævarsdóttir er frekar spennt fyrir því að …
Varaþingkonan Líneik Anna Sævarsdóttir er frekar spennt fyrir því að fara í framboð.

Er að ná áttum

Annar fyrrverandi þingmaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, er að hugsa sig um. „Ég útiloka það ekki,“ segir hún. Líneik gafst ekki ráðrúm til að fara yfir stöðuna um helgina og er að því í dag. Hún segir aðspurð að hún hafi ekki sagt skilið við pólitíkina. „Ég er svona að ná áttum.“

Annar Framsóknarmaður, Karl Garðarsson, hefur nýlega tekið við stöðu framkvæmdastjóra í félaginu Frjáls fjölmiðlun, sem tekið hefur við rekstri DV, dv.is, Pressunnar, Eyjunnar, Bleikt, Birtu og 433.is. Karl segir að hann hafi ekkert hugleitt málið. Það hafi ekki komið til tals. „Maður útilokar aldrei neitt en þetta er ekki efst í mínum huga í augnablikinu.“

Reyndir þingmenn duttu út

Nokkrir reyndir þingmenn náðu ekki kjöri í síðustu alþingiskosningum. Þeirra á meðal er Valgerður Bjarnadóttir, sem sat á þingi frá 2008 og þangað til í fyrra. Hún segist í samtali við mbl.is ekki ætla í framboð á nýjan leik.

Annað Samfylkingarfólk sem datt af þingi í fyrra voru Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar. Mbl.is hefur ekki náð í þau í morgun. Þá hefur Willum Þór Þórsson, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn, ekki heldur svarað síma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert