UNICEF: Breyta þarf útlendingalögum

© UNICEF

UNICEF á Íslandi hvetur Alþingi til að sameinast um breytingar á útlendingalögum fyrir kosningar, til að tryggja réttindi allra barna sem leita hingað eftir alþjóðlegri vernd. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Nauðsynlegt sé að ráðast í tafarlausar úrbætur á yfirstandandi þingi og tryggja að þeim ákvæðum laganna er varðar réttindi og hagsmuni barna sé framfylgt með fullnægjandi hætti.

þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að …
þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að óbreyttu sendar úr landi. Samsett mynd

„Eitt af yfirlýstum markmiðum nýrra útlendingalaga (nr. 80/2016), sem unnin voru af þverpólitískri nefnd þingmanna og tóku gildi 1. janúar 2017, var að uppfylla með skýrari hætti mannréttindi barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og samræma löggjöf alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi 2013. Síðustu mánuði hefur hins vegar komið í ljós að talsverðir annmarkar eru á framfylgd laganna og nauðsynlegt er að skýra betur inntak þeirra með tilliti til mannréttinda og hagsmuna barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Mál tveggja ungra stúlkna sem synjað hefur verið um vernd og vísa á úr landi hafa hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum síðustu mánuði. Þó svo að sérstaklega hafi verið rætt opinberlega um mál einstaka barna má ekki gleymast að fleiri börn hér á landi eru í sömu sporum. Tryggja þarf að öll börn njóti mannúðar og mannréttinda,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

Nánar á heimasíðu UNICEF

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert