Uppreist æra ekki alltaf nauðsynleg

Á meðal þeirra sem fengu uppreist æru á síðustu 20 …
Á meðal þeirra sem fengu uppreist æru á síðustu 20 árum eru fimm einstaklingar sem voru áður eða eru í dag lögmenn. mbl.is/Árni Sæberg

Í gögnum sem dómsmálaráðuneytið afhenti fjölmiðlum í gær sést að þó nokkrir hafa sótt um uppreist æru með það í huga að það auðveldi þeim að að sækja um störf eða halda starfi sínu. Í nokkrum tilfellum er rétt að einstaklingar þurfi þau borgaralegu réttindi sem uppreist æra felur í sér, t.d. varðandi að vera kjörgengur til Alþingis og að fá málflutningsréttindi sem lögmaður. Þá er stundum gerð krafa um óflekkað mannorð í tengslum við önnur lögvernduð starfsheiti eins og endurskoðendur.

Þessu er þó ekki alltaf að skipta og vekur það upp spurningar hvort viðkomandi sé að sækja um uppreist æru án þess að nauðsyn sé til þess eða hvort um sé að ræða ákveðin grunngildi sem þeir vilja halda í heiðri.

Í einu tilfelli er meðal annars óskað eftir uppreist æru með vísan til þess að viðkomandi ætli að starfa á rækjubát og í öðrum tilfellum til að starfa við hópbílaakstur.

Fimm lögmenn í hópi þeirra sem fengu uppreist æru

Í öðrum tilfellum er uppreist æra hins vegar nauðsynleg. Það á meðal annars við þegar Guðmundur Njáll Guðmundsson fékk uppreist æru árið 2011, en hann hafði hlotið þriggja ára dóm fyrir brot á fíkniefnalögum árið 2001. Þegar hann sótti um uppreist æru hafði hann klárað meistaraprófi í lögfræði og starfar í dag sem lögmaður.

Árið 2011 fékk Jón Matth­ías Bergs­son einnig upp­reist, en hann hafði árið 2003 hlotið tveggja ára dóm fyr­ir að nauðga 16 ára stúlku. Hann sótti um upp­reist æru til að geta starfað sem lögmaður, sem hann ger­ir í dag.

Sveinn Skúlason var árið 2005 dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í fjárdráttarmáli. Starfaði hann þá sem lögmaður og eftir að hafa verið veitt uppreist æru hóf hann að starfa á því sviði að nýju.

Mál Atla Guðjóns Helgasonar er nokkuð þekkt, en hann var árið 2001 dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp. Hann var þá starfandi lögmaður. Eftir að hafa setið af sér dóminn hóf hann að starfa á lögmannsstofu og árið 2015 var honum veitt uppreist æra. Sóttist hann í fyrra eftir að fá lögmannsréttindi sín að nýju, en eftir talsverða fjölmiðlaumfjöllun um málið dró hann kröfu sína um réttindin til baka.

Nú síðast óskaði Róbert Downey, áður Ró­bert Árni Hreiðars­son, eftir því að fá lögmannsréttindi að nýju eftir að að hafa afplánað dóm sem hann fékk árið 2008 fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn fjórum stúlkum. Hafði hann áður fengið uppreist æru. Hæstiréttur staðfesti í júní að hann gæti óskað eftir hjá Lögmannafélaginu um að fá réttindi sín endurvirkjuð.

Alþingismaður og sóknarprestur

Í málum sem ekki tengjast lögmennsku fékk Árni Johnsen, sem hafði áður verið þingmaður, uppreist æru árið 2006. Í kjölfarið bauð hann sig á ný fram og hlaut kosningu á þing.

Þá óskaði Guðjón Skarp­héðins­son, sem var einn hinna dæmdu í Geirfinns­mál­inu, eft­ir upp­reist æru árið 1995 í ljósi þess að hann hafði lokið guðfræðinámi. Hann varð síðar sókn­ar­prest­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert