Hafa tekið sér tak í upplýsingamiðlun

Grunnskólanemendur í 4. og 7. bekk þreyta brátt samræmd könnunarpróf.
Grunnskólanemendur í 4. og 7. bekk þreyta brátt samræmd könnunarpróf. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rafræn könnunarpróf verða lögð fyrir 4. og 7. bekk í vikunni dagana 21. - 29. september. Þetta er í annað sinn sem prófin verða með rafrænum hætti. Í fyrra komu upp ýmsir tækni­leg­ir erfiðleik­ar í framkvæmd prófanna. Fyrir þetta próf er meðal annars búið að fara yfir tölvukerfið og sníða af hina ýmsu agnúa, að sögn Sverris Óskarssonar sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar. 

Í fyrra voru al­geng­ustu erfiðleik­arn­ir sem nem­end­ur, kenn­ar­ar og skóla­stjórn­end­ur fundu fyr­ir, innslátt­ar­vill­ur við inn­rit­un í próf­in en til þess höfðu nem­end­ur fengið út­hlutuðum sér­stök­um próf­kóðum. 

„Við erum búin að fara yfir allt tölvukerfið og laga agnúa. Hluti af vandanum í fyrra voru samskipti milli okkar og skólanna t.d. að slá inn prófkóða og fleira í þeim dúr sem var ekki nógu gott,“ segir Sverrir.

„Við höfum tekið okkur tak í allri upplýsingamiðlun

Haldnir hafa verið um 12 samráðsfundir og upplýsingafundir í fjarfundabúnaði milli starfsmanna skóla og Menntamálastofnunar. „Við höfum tekið okkur tak í allri upplýsingamiðlun og byggt upp betra traust til skólanna,“ segir Sverrir. Einnig hefur þjónustuverið verið eflt til muna þar sem starfsmenn skóla geta fengið upplýsingar. „Við ætlum að láta þetta ganga mjög vel núna,“ segir Sverir. 

Talsverð óánægja var meðal kennara og stjórnenda skóla eftir samræmdu könnunarprófin og viðmót Menntamálastofnunar. Í ályktun sem Félag grunnskólakennara sendi frá sér í 9. maí 2017 var bent á að „ábend­ing­ar frá fag- og hags­munaaðilum um hvað bet­ur megi fara eru oft­ar en ekki hunsaðar af Mennta­mála­stofn­un og ekk­ert raun­veru­legt sam­ráð er um stefnu­mót­un og stefnu­mörk­un í mál­efn­um grun­skól­ans.“

mbl.is/Rósa Braga

 

Allir betur undirbúnir

Sverrir tekur fram að margt hafi breyst til batnaðar á þessum tíma og markvisst hafi verið unnið að því að bæta framkvæmd samræmdu könnunarprófanna. Á prófdögunum verða 10 til 12 manns á vakt á Menntamálastofnun sem kennarar geta óskað eftir að fá aðstoð hjá ef þeir þurfa.  

Hann bendir á að skólarnir hafi einnig bætt tölvukostinn og nettengingar milli ára. „Okkar tilfinning núna er sú að allir séu betur tilbúnir með okkur. Þetta er samvinnuverkefni.“ 

Prófað verður í íslensku sér og stærðfræði sér en ekki báðum þessum þáttum í sama prófinu. „Fólki fannst þetta erfiðara í útfærslu. Þetta er skýrara og einfaldara ferli,“ segir Sverrir. 

Ekki taka allir nemendur skólans prófið á sama tíma. Tvær útgáfur af prófunum verða í gangi. „Nei. Við erum með tvö kerfi og ruglum spurningum og fleira. Við teljum okkur vera búin að komast í veg fyrir það. Það er enginn tölfræðilegur munur á árangri hjá þeim nemendum sem byrja klukkan 9 eða 11,“ segir Sverrir spurður hvort þetta fyrirkomulag auki ekki líkur á að nemendur svindli í prófinu.   

Alls þreyta könnunarprófin tæplega níu þúsund grunnskólanemendur um 4.300 nemendur í 7. bekk og 4.700 í 4. bekk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert