Hellulaug stenst gæðakröfur

Hellulaug er í flæðamálinu við Flókalund í Vatnsfirði.
Hellulaug er í flæðamálinu við Flókalund í Vatnsfirði. Af vef Flókalundar

„Vegna umræðu um heitar náttúrulaugar á Vestfjörðum viljum við að þetta komi fram. Hellulaug við Flókalund stenst allar kröfur sem gerðar eru til náttúrulauga.“ Þetta kemur fram í færslu sem starfsfólk Hótels Flókalunds birtir á Facebook. Með færslunnni fylgir mynd af eftirlitsskýrslu frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. 

Hellulaug er lítil laug í flæðarmálinu stutt frá Flókalundi í Vatnsfirði. „Við hugsum vel um laugina, við tæmum hana annað slagið og skrúbbum hana með strákústum,“ segir Soffía Haraldsdóttir, hótelstjóri á Flókalundi. Þá segir hún einnig skipta máli að þrífa vel umhverfi laugarinnar.

Nokkur umræða hefur verið upp á síðkastið vegna gerla- og bakteríumengunar í náttúrulaugum hér á landi. Ástæðan er fyrst og fremst aukin aðsókn vegna vaxandi ferðamannastraums. Áður hafi laugarnar hreinsað sig sjálfar en það eigi ekki við lengur.

Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, hefur almennt mælt með notkun klórs í baráttunni gegn gerla- og bakteríumengun í náttúrulaugum.

Frétt mbl.is: Vill kveða niður klórdrauginn

„Við höfum ekki myndað okkur skoðun á klórnotkun,“ segir Soffía. Sírennsli er í laugina sem tryggir einnig hreinlæti hennar að mati Soffíu. Hún segir einnig skipta máli að hugsa vel um svæðið í kringum laugina og gefa fólki færi á að hugsa vel um laugina og umhverfið. „Umgengnin hjá okkur er góð.“

Færsla Hótels Flókalundar:  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert