Kynferðisbrotaþoli og líka gerandi

Halldór Auðar Svansson.
Halldór Auðar Svansson.

„Ég er ekki bara kynferðisbrotaþoli heldur er ég líka gerandi. Ég hef ýjað að þessu í viðtali um mína reynslu en ekki sagt það nógu hreint út - ég hef valdið þjáningum sjálfur.“ Þetta segir Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, í Facebook-færslu sinni. 

Hann segist jafnframt vilja axla ábyrgð á eigin gjörðum og kallar eftir því að þeir sem hann hafi mögulega brotið á leiti til hans ef þeir treysti sér til þess. Einnig eigi fólk að stíga fram. Hann segist einnig ekki muna allt sem hann hafi gert. „Áfengi er hræðilegur þjáningarvaldur og það eyðir mörkunum milli fólks. Ég hefði átt að hætta að drekka fyrir löngu,“ segir hann jafnframt í færslunni. 

Í viðtali við Pressuna 17. apríl 2015 lýsir hann því hvernig eldri piltar neyddu hann til að afklæðast. ,,Ég man bara hvað ég var hræddur, skelkaður og niðurlægður. Og hvað ég var ringlaður yfir því sem var að gerast.“ Þetta kemur fram í viðtalinu og þar segist hann einnig hafa „brenglaða tilfinningu fyrir því hvar mörkin liggja í samskiptum við annað fólk“, einkum hitt kynið.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert