Mótmæla hækkun á leigu vegna hávaða

Nýleg reistir stúdentagarðar við Norræna húsið.
Nýleg reistir stúdentagarðar við Norræna húsið. Styrmir Kári

Hópur íbúa á stúdentagörðunum við Sæmundargötu og Eggertsgötu hyggjast senda áskorun til Félagsstofnunar stúdenta um að fresta hækkun leigugjalds vegna hávaða sem stafar af framkvæmdum FS í nágrenninu.

Í bréfi sem hópurinn hefur sent FS segir að íbúar og leigutakar á stúdentagörðunum við Sæmundargötu vilji koma þeim athugasemdum á framfæri við leigusala sinna að eftir samskipti íbúanna á milli hafi borið á mikilli óánægju vegna hækkunar á leigugjaldi sem tók gildi í september. 

Frétt mbl.is:Leigan hækkar á stúdentagörðunum

Þá segir í bréfinu að leigutökum sé ljóst að samkvæmt ákvæði leigusamnings áskilji FS sér rétt til hækkunar á umsaminni leigufjárhæð umfram almenna hækkun vísitölu neysluverðs í septembermánuði ár hvert. Leigutakar draga ekki í efa að FS hafi haft málefnalegar ástæður fyrir hækkuninni en vekja athygli á sjónarmiðum sínum sem þeir telja ekki síður málefnaleg í ljósi sanngirnisraka. 

Sanngirnisrök leigutakanna eru þau að framkvæmdir sem nú fara fram í nágrenni við stúdentagarðana hafi óumdeilanlega mikinn og truflandi hávaða í för með sér og valdi töluverðri skerðingu á afnotum leigutaka af íbúðunum. Jafnframt segir í bréfinu að leigutökum sé ljóst að framkvæmdir vegna stúdentaíbúðanna þurfi að ganga hratt fyrir sig vegna gríðarmikillar eftirspurnar eftir slíku húsnæði og takmarkaðs framboðs á almennum leigumarkaði en þó verði að athuga að sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir skerði lífsgæði íbúa og þar með afnot af íbúðunum. 

Segja tilkynningaskyldu ekki fylgt

Leigutakarnir lýsa yfir vonbrigðumvegna þess að reglum hafi ekki verið fylgt varðandi tilkynningaskyldu leigusala. Engar tilkynningar hafi borist um fyrirkomulag vinnuferils með tilliti til röskunar á íbúðarsvæðinu eða yfirlit yfir það hvaða þættir séu líklegir til að valda ónæði, hvenær unnið verði að þeim og hversu lengi framkvæmdi muni standa yfir. Vegna skorts á upplýsingum hafi leigutakarnir hvorki getað hagað áætlunum sínum eftir aðstæðum né fengið tækifæri til að gera athugasemdir við háværustu framkvæmdirnar.

Í bréfinu segja íbúar að framkvæmdir hafi almennt staðið yfir frá því klukkan sjö á morgnana langt fram eftir kvöldi alla daga vikunnar sem hafi verulega truflandi áhrif á námsfrið. 

Fordæmi fyrir afslætti

Íbúar stúdentagarðanna benda jafnframt á því að fordæmi séu fyrir því að FS veiti leigutökum afslátt vegna framkvæmda sem valda hávaða, en það var gert þegar nýir leigutakar fluttu inn í stúdentagarðana við Brautarholt á meðan framkvæmdir stóðu enn yfir. 

Leiðrétting: Aðstandendur undirskrifarsöfnunarinnar höfðu samband við mbl.is og leiðréttu það að áskorunin hafi ekki verið send til FS heldur hafi staðið til að gera það á næstu dögum. Vegna fréttarinnar verður máli afgreitt á skemmri tíma en áætlað var að hálfu aðstandenda undirskriftarsöfnunarinnar en til stóð að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri við FS áður en fjallað yrði um málið í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert