Ósöluhæfar eignir Lindarhvols í lífeyrisskuldbindingar

Ráðuneytið hef­ur sent greinar­gerð um Lind­ar­hvol til Alþing­is.
Ráðuneytið hef­ur sent greinar­gerð um Lind­ar­hvol til Alþing­is. mbl.is/Brynjar Gauti

Til greina gæti komið að ráðstafa þeim eignum Lindahvols ehf., sem ekki eru söluhæfar, beint til niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Þannig væri unnt að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð. Þetta kemur fram í greinargerð um starfsemi Lindahvols sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi Alþingi í dag en í greinargerðinni er farið yfir framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. 

Í greinargerðinni segir að Lindahvoll hafi komið langstærstum hluta þeirra stöðugleikaeigna sem félaginu var falin umsýsla á í laust fé og hefur greiðsluflæði vegna þeirra eigna verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Einnig hefur verið lokið við samkomulag vegna nokkurra fjársópseigna þar sem fjármunir hafa verið geymslugreiddir eða þeir verða greiddir þegar nánar tilteknum fyrirvörum hefur verið fullnægt á árinu 2017.

Að mati Lindahvols ehf. er ekki talið heppilegt að setja óskráð hlutabréf í umsýslu Lindahvols, að frátöldum hlutabréfum í Lyfju, í söluferli að svo stöddu þar sem slík sala mun ekki verða til þess að hámarka verðmæti viðkomandi hlutabréfa meðal annars vegna eðlis eignanna og annarra þátta sem snúa sérstaklega að einstökum eignum á eignaflokknum. 

Aðrar stöðugleikaeignir sem falla undir flokkinn aðrar eignir eru að mati félagsins þess eðlis að því markmiði að hámarka verðmæti þeirra eigna til hagsbóta fyrir Ríkissjóð Íslands sé best náð með því að bíða eftir að greiðslur vegna þeirra berist beint inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Skilyrtar fjársópseignir eru því marki brenndar að ekki er hægt að setja þær í sölu af hálfu Lindarhvols ehf. og því verður að bíða eftir að slitabúin ljúki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að skilyrðum verði aflétt.

Sökum þess að framangreindar eignir eru ekki söluhæfar, gæti komið til greina að ráðstafa þeim beint til niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Þannig væri unnt að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð að því er fram kemur í greinargerðinni.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins tefur

Stefnt var að því að draga verulega úr starfsemi Lindahvols á fyrri hluta ársins en vegna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi Lyfju og til þess að klára ráðstafanir á öðrum eignum mun félagið starfa áfram um ótiltekinn tíma að því er fram kemur í greinargerðinni. Þó er stefnt að því að ljúka úrvinnslu og sölu eigna eins fljótt og auðið er í samræmi við samninga fjármála- og efnahagsráðuneytisins við Lindarhvol, og koma því sem unnt er í verð til þess að ná markmiðum um ráðstöfun stöðugleikaframlaga til niðurgreiðslu skulda. Ekki er talið óvarlegt að áætla að unnt verði að slíta starfsemi Lindarhvols ehf. á fyrri hluta árs 2018. 

56.448 milljónir frá því í febrúar

Frá því í febrúar 2017 og fram til ágústloka hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn numið 56.448 milljónum króna. Staðan á reikningnum þann 3. febrúar var 6.641 milljón króna. Alls hefur 58.700 milljónum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda á tímabilinu, skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands var greitt upp að fullu en eftirstöðvar þess námu 28,5 milljörðum. Þá var um 30 milljörðum ráðstafað til uppkaupa á skuldabréfaflokknum RIKH 18 sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar fjármálastofnana.

Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 25. ágúst 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega 140 milljörðum. Þar af var 17 milljörðum ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 120 milljörðum hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert