Spínat innkallað vegna aðskotahlutar

Spínat.
Spínat. cooking classy

Innnes ferskvörusvið hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ákveðið að kalla inn spínat í 150 og 500 gramma einingum. Það er gert vegna gruns um aðskotahlut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innnesi en Morgunblaðið greindi frá því í dag að karlmaður hefði leitað sér aðstoðar á Landspítalanum eftir að hann varð var við dautt nagdýr í salati sem hann keypti á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðiseftirlitið tók í kjölfarið út staðinn en engin þörf var talin á því að loka honum eftir þá athugun. Ekkert benti til að þar væri nagdýravandamál.

Frétt mbl.is: Dautt nagdýr í salatinu

Eigandi veitingastaðarins hefur í dag sagt að líklega hafi einhver viljað gera þeim grikk. Útilokað sé að músin hafi komist í salatið hjá þeim.

Fram kemur í tilkynningu frá Innnesi að ráðist sé í innköllunina af sjónarmiði varúðar og með tilliti til neytendaverndar. „Innköllunin á við um 150 g Azora-spínat í pokum með dagsetningum best fyrir 17.9. 2017 og 24.9. 2017 og Azora-spínat 500 g í pokum með dagsetningum best fyrir 17.9. 2017 og 24.9. 2017.“

Fram kemur að framleiðslusland sé Spánn og framleiðandi Verdimed.

Innnes hvetur fólk til að skila vörunni í næstu verslun eða til Innness ferskvörusviðs á Bæjarflöt 2 í Reykjavík, gegn endurgreiðslu. „Innnes harmar þetta mjög og biðst velvirðingar á þessu atviki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert