„Það er allt í hers höndum“

„Ástandið er eins og Franco hefði komið og tekið yfir. Það er allt í hers höndum. Þeir loka fyrirtækjum og nú [fyrr í dag] er Katalóníutorg fullt af fólki,“ segir Jón Arason, sem er búsettur skammt fyrir utan Barcelona.

„Það hafa að vísu engin dauðsföll orðið en þetta er dálítið sláandi.“

Í borginni hafa spænsk stjórnvöld handtekið fjórtán katalónska embættismenn og ráðist inn í þau ráðuneyti sjálfsstjórnarhéraðsins sem koma að skipulagningu fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu 1. október um aðskilnað Katalóníu frá Spáni.

Fjöldi mótmælenda safnaðist saman fyrir utan efnahagsráðuneytið í Barcelona í dag á meðan húsleit stóð þar yfir og var andrúmsloftið spennuþrungið.

Fólk heldur á „Esteladas
Fólk heldur á „Esteladas", sjálfstæðisfána Katalóníu, fyrir utan efnahagsráðuneyti Katalóníu. AFP

Fólk sent út á götu

Að sögn Jóns hafa lögreglu- og hermenn lokað fyrirtækjum, þar á meðal prentsmiðjum, og farið inn í margar opinberar stofnanir þar sem vinir Jóns og konu hans starfa. „Við eigum vini og kunningja sem hafa sent myndir þar sem lögreglan er að senda fólk út á götu. Maður hefði ekki trúað þessu,“ segir hann.

Jón kveðst hafa fylgst vel með spænskum stjórnmálum og segir hann Þjóðarflokkinn, sem núna er í meirihluta með Mariano Rajoy sem forsætisráðherra, hafa verið afdráttarlausan í orðavali sínu þegar kemur að kröfu Katalóníu um sjálfstæði.

„Ég átti ekki alveg von á þessu en síðustu daga hefur forsætisráðherra sagt að það verði ekki kosið. Hann hefur ekki viljað ræða við stjórnina hér,“ segir Jón um Rajoy.

Hópur fólks heldur á stórum borða þar sem á stendur …
Hópur fólks heldur á stórum borða þar sem á stendur „Lýðræði Katalóníu velkomið" í mótmælum í Barcelona. AFP

Eins og Ísland og Danmörk

Aðspurður segist hann sjálfur fylgjandi því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um aðskilnað Katalóníu frá Spáni. „Frá mínum bæjardyrum séð snýst þetta fyrst og fremst um að fá að segja skoðun sína,“ segir Jón og tekur fram að Katalónía sé allt annað menningarsvæði en þau sem er að finna annars staðar á Spáni. Hægt sé að líkja þessu við muninn á milli Íslands og Danmerkur.

Gamall hrollur í eldra fólki

Aðskilnaðarsinnar í Katalóníu hafa hvatt almenning til að mæta á Katalóníutorg og láta heyra í sér í kvöld og ætlar Jón að vera þar á meðal. Hann kveðst ekki vera hræddur við að fara til Barcelona vegna ástandsins sem nú er uppi. „En auðvitað getur ýmislegt gerst. Fyrst þeir taka upp á þessu veit maður ekki hvað gerist næst. Ég veit að flokkurinn sem er við stjórn var stofnaður upp úr Franco-stjórninni. Ég er ekki beint hræddur en ég ber ekki mikið traust til þeirra aðila sem eru við stjórnvölinn. Ég hef heyrt að það hleypur gamall hrollur í eldra fólk en það er engin ofsahræðsla hérna. Menn eru fyrst og fremst að tala sín á milli,“ segir hann.

„Þetta er bara ljótur leikur að mínu viti. Menn vilja ekki notast við lýðræðislegar úrlausnir heldur vald og ég er ekki hrifinn af því.“

Mótmælendur halda blómum á lofti í mótmælunum í Barcelona.
Mótmælendur halda blómum á lofti í mótmælunum í Barcelona. AFP

Tæp 50 prósent á móti sjálfstæði

Flokkar aðskilnaðarsinna hlutu 47,6 prósent atkvæða í kosningum í Katalóníu fyrir tveimur árum en sú atkvæðagreiðsla átti að leggja línuna fyrir sjálfstæði. Flokkarnir fengu nauman meirihluta með 72 sætum af þeim 135 þingsætum sem eru í boði á katalónska þinginu.

Skoðanakannanir hafa sýnt að íbúar Katalóníu eru ekki á sama meiði varðandi aðskilnað frá Spáni. Könnun sem gerð var í júlí sýndi að 49,4 prósent Katalóna voru á móti sjálfstæði á meðan 41,1 prósent voru því fylgjandi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert