Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á þrítugsaldri, Emil Arnar Reynisson, hefur verið dæmdur í 13 mánaða fangelsi fyrir að hafa brotist inn í hús í Hafnarfirði og sest á rúm 11 ára stúlku sem þar dvaldi brjóta gegn henni kynferðislega með að strjúka henni um bak og mjöð innanklæða áður en hann fór upp í rúm til hennar og hélt áfram að strjúka henni. Stúlkan náði eftir það að flýja inn á baðherbergi og meina manninum inngöngu þangað.

Þá var maðurinn einnig fundinn sekur um blygðunarsemisbrot með því að hafa í maí á þessu ári sært blygðunarsemi konu með því að hafa farið upp að baðherbergisglugga í húsi hennar og horft á hana berbrjósta.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Emil hafi í maí ruðst inn á heimilið þar sem stúlkan dvaldi hjá föður sínum. Lýsti stúlkan því að hún hafi vaknað við að maðurinn stæði við rúmið. Þegar hann byrjaði að strjúka henni hafi hún snúið upp á sig til að fá hann til að hætta. Það gerði hann um stund en svo þegar hún færði sig fjær manninum í rúminu hafi hann skriðið upp í til hennar og reynt að strjúka henni meir.

Stúlkan fór svo á baðherbergi en hún segir manninn meðal annars hafa sagt að hún ætti ekki að vera hrædd og að hann hafi ekki ætlað að hræða hana. Maðurinn reyndi að komast inn á baðherbergið en stúlkan hafði læst á eftir sér. Komst hún síðar til forelda sinna sem voru sofandi í húsinu. Þau hafi séð útidyrahurðina opna og að umgangur hafi verið um eldhúsið.

Emil neitaði sök að hluta í þessum ákærulið. Sagðist hann hafa komið inn í húsið og kallað „halló halló“ þegar inn var komið. Hann hafi farið inn í herbergi til stúlkunnar og klappað á sængina hennar, kannski á lærið. Neitaði hann öllum ásökunum um að kynferðisbrot væri að ræða og kveðst hann ekki hafa vitað að um barn væri að ræða. Sagðist maðurinn hafa verið undir miklum áhrifum áfengis, örvandi efna og pillum umrætt kvöld.

Stúlkan hafði lýst því að maðurinn hafi kallað sig öðru nafni sem merkt er sem „H“ í dóminum. Spurður út í það nafn sagði ákærði að hann hafi hitt hana seinna um kvöldið og að hann hafi ætlað að fara á stefnumót með henni seinna um kvöldið.

Neitaði Emil því að hafa reynt að fara inn á baðherbergi til stúlkunnar, en að hann hafi farið á eftir henni til að biðja hana afsökunar.

Fram kom í máli föður og stjúpmóður stúlkunnar að atvikið hefði haft töluverð áhrif á stúlkuna. Hún sé komin með snertifælni og vilji ekki ræða atvikið. Þá hafi hún orðið hrædd þegar hún frétti að maðurinn væri laus úr gæsluvarðhaldi, en hann var í varðhaldi frá því í maí fram til loka júlí. Þá eigi hún erfitt með að sofa í sínu herbergi og hafi einangrast frá félögum sínum og sé allt annað barn í dag.

Auk fangelsisdóms þarf maðurinn að greiða stúlkunni 300 þúsund krónur í miskabætur, greiða 646 þúsund í sakarkostnað og um fjórar milljónir í málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert