Djúp lægð á leiðinni

Búast má við stormi á laugardaginn.
Búast má við stormi á laugardaginn. mbl.is/RAX

„Ákefðin var þegar mest lét allra austast svona rétt rúmir 10 mm á klukkustund,“ segir Daníel Þorláksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Veðurstofan varaði við mikilli úrkomu sem gæti valdið vatnavöxtum í ám og lækjum í dag, einkum syðst á Austfjörðum og á Ströndum. Þá er von á djúpri lægð yfir landið um helgina.

Tók að draga úr úrkomunni eftir hádegi í dag en að sögn Daníels var ákefðin nokkuð mikil, nálægt því að vera í metflokki, þótt úrkomumet hafi ekki verið slegið. Mest var úrkomumagnið 69 mm í Neskaupstað yfir daginn.

Búist við stormi á laugardaginn

„Það verða ríkjandi suðlægar og suðaustlægar áttir með talsverðri vætu en ekkert mjög mikilli rigningu á sunnanverðu landinu en að mestu bjart norðan til. Síðan á laugardaginn gæti verið svolítið mikil úrkoma og djúp lægð að koma til okkar, hún er 970 millíbör núna í líkönunum. Það verður líklega bara stormur,“ segir Daníel um veðurhorfur næstu daga.

Spurður hvort um sé að ræða fyrstu hressilegu haustlægðina segir Daníel að svo megi segja. „Þá verðum við komin fram yfir jafndægur, ætli maður verði ekki að tala um haustið einhvern tímann,“ segir Daníel.

Veðurhorfur næstu daga

Samkvæmt núgildandi spá Veðurstofunnar má búast við vaxandi suðlægri átt, 10-18 í nótt, hvassast vestanlands. Úrkoma fer minnkandi og birtir til um landið norðanvert í nótt og hægari vindur í fyrramálið. Búist er við austlægri átt, 5-10 á morgun með vætu á köflum um landið sunnanvert, en víða bjartviðri norðan til. Hiti á bilinu 6 til 13 stig.

Á föstudag:
Suðlæg átt, 5-10 m/s. Víða bjartviðri norðan- og norðaustanlands, annars væta á köflum og hiti 7 til 13 stig. 

Á laugardag:
Útlit fyrir austanhvassviðri eða storm með rigningu víða um land, en úrhellisrigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast N-lands. 

Á sunnudag:
Stíf suðlæg átt og rigning, en lengst af bjart veður norðanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á mánudag og þriðjudag:
Hvöss austlæg átt, á köflum talsverð eða mikil rigning sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið fyrir norðan. Fremur milt í veðri.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert