Fær afhent gögn úr eineltisskýrslu

Lögreglukona hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fær aðgang að hluta af gögnum úr sálfræðilegri greinargerð sem embættið lét útbúa eftir kvörtun konunnar um meint einelti í sinn garð. Niðurstaða greinargerðarinnar, sem gerð var 2011, var að ekki hafi verið um einelti að ræða, heldur óæskilega hegðun af hálfu geranda. Vildi konan fá aðgang að greinargerðinni til að bera hana undir óháðan sálfræðing. Kærði hún því málið til úrskurðanefndar um upplýsingamál.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að réttur konunnar til aðgangs að framburði meintra gerenda og vitna um atvik sem snertu framgöngu hennar á vinnustað og meint einelti vegi þyngra en hagsmunir sömu aðila af því að leynd ríkti um framburð þeirra. Hafði þeim sem ræddu við sálfræðinginn þó verið heitið fullum trúnaði.

Segir í úrskurðinum að slíkt loforð geti þó ekki eitt út af fyrir sig staðið í vegi fyrir að konan fái aðgang að skýrslunni samkvæmt upplýsingalögum.

Embætti lögreglustjórans hafði áður synjað konunni um gögnin og vísað til upplýsingalaga og að um væri að ræða persónulegar upplýsingar fyrir þá sem samþykktu að ræða málið og auðvelt væri fyrir þá sem þekktu til starfsemi lögreglunnar að gera sér grein fyrir við hvern átt væri þó að nöfn væru tekin út.

Nefndin féllst ekki á þann rökstuðning. „Í þessu sambandi verður að hafa í huga að kærandi bar fram kvörtun yfir því að hún hefði sætt einelti og hefur hún því ríka hagsmuni af því hvernig niðurstaða í kvörtunarmáli hennar var fengin,“ segir í úrskurðinum.

Aftur á móti þarf embætti lögreglunnar að afmá nöfn úr skýrslunni í nokkrum köflum sem og stöku setningar. Þá ber að afmá upplýsingar sem lúta að rannsókn sakamáls eða sem hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra en konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert