Fjárskortur hjá Kvenfélagasambandinu

Kvenfélagasamband Íslands hefur þurft að segja upp báðum starfsmönnum sínum …
Kvenfélagasamband Íslands hefur þurft að segja upp báðum starfsmönnum sínum vegna fjárskorts. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kvenfélagasamband Íslands hefur þurft að segja upp báðum starfsmönnum sínum vegna fjárskorts, en Bryndís Ásta Birgisdóttir, gjaldkeri sambandsins, segir stjórnina hafa gripið til þess ráðs því henni hafi verið ljóst að ef reksturinn ætti að ganga til framtíðar þyrfti að breyta fyrirkomulagi sambandsins og skera niður.

Starfsmennirnir tveir sem sagt var upp voru framkvæmdastjóri í fullu starfi og almennur starfsmaður sem meðal annars sá um Leiðbeiningastöðina og tímaritið Húsfreyjuna í 80% starfshlutfalli.

„Kerfið er breytt og við fáum ekki styrki frá ríkinu eins og áður fyrr. 2018 verða bara gefnir út verkefnastyrkir en okkur vantar rekstrarstyrk. Við þurftum því að grípa til uppsagna áður en að það kæmi að því að við hefðum ekki efni á að borga launin,“ segir Bryndís. Um helgina mun sambandið þó auglýsa eftir starfsmanni í 60% starfshlutfall í almenn skrifstofustörf hjá sambandinu. „Við ætlum ekki að hafa neinn framkvæmdastjóra en stjórn sambandsins ætlar að dreifa á sig verkum.“

Bryndís segir sambandið þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum en vonast þó til þess að starfsemin breytist sem minnst. „Það fyrsta sem við skerum niður er að sækja fundi hjá öðrum félagasamtökum á dagvinnutíma. Við þurfum bara að velja það mikilvægasta úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert