Fresta landsfundi til næsta árs

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir einhug hafa verið hjá miðstjórn um …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir einhug hafa verið hjá miðstjórn um frestun landsfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákveðið var á fundi í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í dag að fresta landsfundi flokksins þar til í byrjun næsta árs. Þetta staðfestir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

„Það var mikill samhljómur um að fresta Landsfundi fram yfir áramót og hann verður haldinn í febrúar eða mars,“ segir Áslaug Arna.

Eftir að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn vegna trúnaðarbrests  í síðustu viku og ákveðið var að ganga til kosninga í lok október, byrjun nóvember var ljóst að kosningar yrðu á svipuðum tíma og fyrirhugaður landsfundur flokksins.

„Tímasetningin var þannig ekki jafnheppileg og hún var áður,“ bætir Áslaug við.

Mbl.is hafði eftir Birgi Ármannssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, á mánudag að erfitt gæti reynst að flýta landsfundi flokksins.

Miðstjórn hefur að sögn Áslaugar Örnu enga aðkomu að því hvernig raðað er á framboðslista flokksins. Hún segir formenn kjördæmisráðanna nú vinna að því hvernig raðað verði á lista eftir kjördæmum. „Það eru flestir sem munu taka ákvörðun í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu um það hvernig það verði gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert