„Ég stóð varla í fæturna“

Fjölskylda Signýjar Bergsdóttur þurfti að flýja heimili sitt eftir að jarðskjálfti upp á 7,1 reið yfir Mexíkóborg í gær og eru sprungur í húsi þeirra. Hún stóð varla í fæturna er skjálftinn reið yfir og sá fjölda hruninna og skemmdra húsa á leið sinni heim. Signý segir hús enn vera að falla saman.

Signý, sem vinnur við tónlist, hefur verið búsett í Mexíkóborg sl. 13-14 ár ásamt Saul Rosas manni sínum og eins árs gömlum syni þeirra Steinari. Hún er því ekki óvön því að skjálfta verði vart í borginni öðru hverju.

„Það varð náttúrulega annar jarðskjálfti hér fyrir viku. Hann var fjær Mexíkóborg, hafði ekki sömu áhrif og það voru öðruvísi hreyfingar. Núna var þetta þannig að ég stóð varla í fæturna. Ég hélt raunar utan um ókunnugan einstakling bara til að geta staðið upprétt,“ segir Signý. 98 manns fórust í skjálftanum fyrir viku, en tala látinna vegna skjálftans í gær er nú komin upp í 225 og óttast er að hún eigi eftir að hækka enn frekar.

Signý Bergsdóttir og sonurinn Steinar. Fjölskyldan varð að flýja heimili …
Signý Bergsdóttir og sonurinn Steinar. Fjölskyldan varð að flýja heimili sitt, en skemmdir eru á húsinu eftir skjálftann. Ljósmynd/Facebook

„Hrundu hús þar sem ég var og þar sem ég bý“

Signý var stödd í Roma Condesa-hverfinu í Mexíkóborg þegar skjálftinn varð, en hverfið er nálægt miðborginni og eitt þeirra hverfa sem urðu hvað verst úti. „Þetta var bara hrikalegt. Maður var skelfingu lostinn og sorgmæddur og náttúrulega hræddur um sína,“ segir Signý og kveður gasleka hafa verið úti um allt. „Svo þegar maður reyndi að komast til að sækja barnið í leikskólann, eftir að hafa komist að því að það væri í lagi með alla, þá voru margar götur lokaðar. Ég held að kaos sé bara eina orðið yfir þetta.“

Á leið sinni á leikskólann að sækja soninn og svo heim sá Signý fjölda bygginga sem ýmist höfðu hrunið eða skemmst. Hún segir sitt hverfi, Narvarde sem er í suðurhluta borgarinnar, einnig hafa orðið illa úti. „Það hrundu hús bæði þar sem ég var og þar sem ég bý.“

Húsið sem fjölskyldan býr í slapp heldur ekki við skemmdir og urðu þau að finna sér annan dvalarstað í nótt, en sprungur eru í veggjum hússins og segir Signý jarðhæð hússins til að mynda vera mjög sprungna. „Það á enn eftir að skoða okkar byggingu, en það verður vonandi gert í dag til að sjá hvort að hún sé íbúðarhæf eða ekki.“ Hún  efast þó um að þau muni búa þar áfram, þar sem hún sé ekki viss um að treysta húsinu.

Loftmynd sem sýnir björgunarsveitarmenn, slökkvilið, lögreglu og hermenn við rústabjörgun …
Loftmynd sem sýnir björgunarsveitarmenn, slökkvilið, lögreglu og hermenn við rústabjörgun í Mexíkóborg. Hús hafa haldið áfram að hrynja í dag að sögn Signýjar. AFP

Ótrúlegt að sjá skemmdirnar

Í gærdag og nótt dvöldu þau hjá vinafólki, enda var rafmagnslaust. „Maður hafði voða lítinn áhuga á að fara út í bíl í gær, en nú erum við komin til frænda Sauls og verðum þar í nokkra daga.“

Signý segir ótrúlegt að sjá skemmdirnar, m.a. á háskólanum sem hún nam við þegar hún kom fyrst til Mexikó í skiptinám. „Margar brýr hrundu og það sama er að segja um þjóðvegi. Þetta á náttúrulega ekki bara við um Mexíkóborg,“ bætir hún við. „Skjálftinn var sterkari annars staðar, en þar eru ekki háhýsi af sömu stærðargráðu eða íbúafjöldinn jafnmikill.“

Vegir eru nú víða lokaðir og mikilvægar brýr milli landshluta hrundu í skjálftanum. „Það á eftir að taka langan tíma að vinna úr þessu,“ segir Signý og kveðst óttast að tala yfir fjölda látinna eigi eftir að hækka, ekki hvað síst utan höfuðborgarinnar.

Björgunarmenn ná hér manni á lífi úr rústum eins þeirra …
Björgunarmenn ná hér manni á lífi úr rústum eins þeirra húsa sem hrundu í Mexíkóborg. AFP

Hús eru enn að hrynja

Signý segir hús enn vera að hrynja í Mexíkóborg og bæjum í nágrenni höfuðborgarinnar. „Það var ein bygging að hrynja fyrir 20 mínútum hérna skammt frá þar sem ég er. Hún var illa farinn eftir skjálftann,“ segir Signý og kveðst vona að ekki hrynji fleiri byggingar með fólki inni í.

Þó að verið sé að reyna að halda fólki frá skemmdum húsum þá eru margir sem vilji komast heim til sín þó ekki nema sé til að sækja nauðsynjar. „Fólk á náttúrulega aleigu sína í þessum húsum og er því að fá að fara inn og sækja dótið sitt. Stundum er þunginn af fólkinu nóg til að húsið hrynji.“

Signý kveðst sjálf hafa gert það sama. „Við fórum upp og náðum í pela fyrir barnið, vegabréf, pening svo við værum ekki algjörir strandaglópar.“

Hún segir rólegra yfir borginni í dag og flestir reyni að vera lítið á ferðinni, þó að margir séu einnig að aðstoða við rústabjörgun. „Síðan er verið að reyna að finna fólki staði til að dvelja á. Það eru eiginlega allir í sjokki og ofboðslega sorgmæddir og reyna að hjálpa til eftir bestu getu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert