Hægt að sækja um vegabréf í 10 löndum

Íslendingar geta nú sótt um vegabréf á 10 stöðum í …
Íslendingar geta nú sótt um vegabréf á 10 stöðum í heiminum. mbl.is/Hjörtur

Íslendingar geta núa sótt um vegabréf í sendiráði Íslands í París, Tókýó og aðalræðisskrifstofunni í New York. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Hingað til hefur búnaður verið til staðar í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Berlín, Washington D.C. og Peking. Nú er því hægt að sækja um vegabréf á 10 stöðum í heiminum, utan Íslands. 

Útgáfa vegabréfa fer í gegnum Þjóðskrá á Íslandi og er almennur afgreiðslutími þeirra um þrjár vikur.

Utanríkisráðuneytið greinir frá því að fjölgun umsóknarstaða er liður í því að bæta þjónustu við hóp Íslendinga sem búsettir eru erlendis. „Í nýútkominni skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar kemur fram að mjög hátt hlutfall Íslendinga eru búsettir erlendis í samanburði við aðrar þjóðir eða 11,7%. Íslendingar með skráða búsetu í erlendum ríkjum þar sem íslenskt sendiráð er starfrækt eru samkvæmt Þjóðskrá 41.584 talsins og 4.808 í ríkjum þar sem ekki er sendiráð,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.   

Í skýrslunni er jafnframt lagt til að búnaður verði endurnýjaður og umsóknarstöðum fjölgað. Jafnframt verði gerð úttekt á kostnaði og fyrirkomulagi á hugsanlegum færanlegum búnaði vegna slíkrar þjónustu við Íslendinga á fjarlægum slóðum og gengið til viðræðna við Þjóðskrá um hvort og hvernig megi auðvelda útgáfu vegabréfa fyrir íslenska ríkisborgara erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert