Ungir vísindamenn í víking

Þau Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet og Vífill Harðarson eru á …
Þau Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet og Vífill Harðarson eru á leið til Tallinn í Eistlandi í lok vikunnar þar sem þau verða fulltrúar Íslands í Evrópukeppni ungra vísindamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet og Vífill Harðarson halda í lok vikunnar til Tallinn þar sem þau taka þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna. Þau sigruðu í landskeppni ungra vísindamanna sem fór fram í Háskóla Íslands í vor.

Verkefni þeirra eru ólík en eiga það þó sameiginlegt að markmiðið með þeim er að hafa góð áhrif á samfélagið.

Herdís Ágústa, sem er á lokaári sínu í MH, kannaði stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Verkefnið vann hún í samstarfi við Barnaheill og niðurstaðan er að stórlega er brotið á rétti barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, til að mynda þeim rétti barna að fá að tjá skoðanir sínar.

„Það eru til margir lagabálkar sem kveða á um réttindi barna en textinn er oft langur og erfitt að skilja hann. Við vildum einfaldlega setja skýrt fram hvaða reglur gilda þegar barn sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi,“ segir Herdís.

Afurð verkefnisins er plakat þar sem réttindi barna eru útlistuð á myndrænan hátt. „Svo börnin skilji sjálf hverju þau eiga rétt á,“ segir Herdís en plakatið má sjá hér á síðunni. „Þessi mál eiga erindi um allan heim svo ég ætla að vekja athygli á þeim,“ segir hún um ferðina til Tallinn.

Vífill Harðarson, sem hóf nám í hagnýtri stærðfræði við HÍ í haust, rannsakaði hvort nýta mætti hliðarafurð úr framleiðslu lýsis til að búa til sápu. Hugmyndin var að reyna að nýta betur auðlindir hafsins.

„Ég hef búið sápuna til tvisvar og hún er í fínasta lagi. Ég hef blandað henni í vatn til að sjá hvort hún freyðir og prófað ph-gildi hennar. Það er í góðu lagi að setja hana á húðina. En ég á eftir að finna út hvort enn séu leifar af Omega 3 og þeim vítamínum sem eru í lýsi,“ segir Vífill.

Er ekki bölvuð fýla af þessu?

„Jú, það eru nokkrir punktar sem þarf að fínpússa, þar með talin lyktin. Lýsislyktin er kannski ekki eitthvað sem fólk vill hafa á húðinni. Ég hafði hugsað mér að prófa að blanda íslenskum jurtum eða sítrónu saman við. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort raunhæft sé að nota þetta á húðina eða í hárið. Það gæti alveg verið markaður fyrir lífræna íslenska fiskiolíusápu.“

Börn fái að tjá sig ef þau vilja

„Við tókum meðal annars viðtal við Helgu Guðmundsdóttur hjá Rauða krossinum og byggðum líka á rannsókn hennar þar sem hún tók viðtöl við flóttabörnin sjálf.

Þetta er oft langt umsóknarferli og við viljum að börn fái aðgang í skóla eins fljótt og hægt er þegar þau koma til landsins. Þetta er það sem þau þurfa á að halda; menntun og þátttöku í samfélaginu svo þau geti uppfyllt drauma sína í framtíðinni,“ segir Herdís.

Hún segir líka mikilvægt að börn fái að tjá sig um sín mál kjósi þau svo. „Í nýju útlendingalögunum er miðað við að þau þurfi að vera 15 ára til þess en við viljum fella þessi aldursviðmið út og fara bara eftir þroska barnsins. Ef börnin vilja tjá sig eiga þau að fá tækifæri til þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert