Úrskurðuð í nálgunarbann gegn dóttur sinni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að móðir skuli sæta nálgunarbanni í sex vikur gagnvart dóttur sinni og ekki koma í 50 metra fjarlægð frá dvalarstað dótturinnar, veita henni eftirför, heimsækja eða nálgast á almannafæri. Þá má hún heldur ekki setja sig í samband við dótturina með símtölum, tölvupósti eða öðrum hætti.

Í úrskuði héraðsdóms kemur fram að dóttirin hafi verið vistuð tímabundið utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga, en í greinargerð lögreglu sem hefur hafið rannsókn á meintu viðvarandi andlegu og líkamlegu ofbeldi móðurinnar gegn dótturinni kemur fram að um sé að ræða barsmíðar með opnum lófa eða krepptum hnefa og hafi móðirin leitast við að höggin lentu í andliti brotaþola.

Bæði móðirin og sambýlismaður hennar sem hafði verið tilgreindur sem vitni þvertaka fyrir að ofbeldi hafi átt sér stað. Aftur á móti staðfesti vinkona dótturinnar að ofbeldi hafi átt sér stað þegar hún hafi verið í heimsókn.

Áður hafa barnaverndaryfirvöld vistað hálfsystur dótturinnar utan heimilis.  Þá segir að móðirin og sambýlismaðurinn hafi þrátt fyrir að börnin hafi verið vistuð utan heimilis reynt að nálgast þau á þeim stað þar sem þau dvelja til að sækja þau.

Mæðgurnar fluttust til Íslands fyrir þremur árum og greindi dóttirin frá því að samband þeirra hafi aldrei verið gott og móðirin meðal annars „lamið brotaþola [dótturina] í klessu og ekki leyft henni að fara í skóla eftir það til að koma í veg fyrir að marblettir sem hún hafi fengið sæjust og hafi slíkt gerst nokkrum sinnum.“ Ástandið hafi batnað þegar þær fluttu til Íslands, en svo versnað að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert