Vestfirðingar fá að ræða við ráðamenn

Borgarafundur Vestfirðinga verður haldinn á Ísafirði á sunnudag.
Borgarafundur Vestfirðinga verður haldinn á Ísafirði á sunnudag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er fyrst og fremst tækifæri fyrir Vestfirðinga til þess að ræða við ráðamenn um þessi mikilvægustu uppbyggingarmál,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, um borgarafundinn sem haldinn verður næstkomandi sunnudag, 24. september, klukkan 14 í íþróttahúsinu á Torfsnesi á Ísafirði.

Í tilkynningu segir að mikilvæg hagsmunamál Vestfirðinga verði rædd á borgarafundinum sem boðað hefur verið til af sveitarfélögunum á Vestfjörðum ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Þau mál sem tekin verða fyrir á fundinum snúa að raforkumálum í tengslum við Hvalárvirkjun, samgöngumálum í Gufudalssveit og sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.

Á fundinn hafa staðfest komu sína starfandi ráðherrar málaflokkanna, en það eru ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Auk þess hefur formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands verið boðið á fundinn. KPMG mun einnig gera grein fyrir meginniðurstöðu nýrrar skýrslu sinnar fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða um hagræn og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi.

Að loknum framsögum taka fulltrúar sveitarfélaganna, ráðherrar, fulltrúi KPMG og formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sæti í pallborði til að svara spurningum úr sal.

„Það er fullt tilefni til að Vestfirðingar finni samhljóm sín á milli í sínum baráttumálum. Auðvitað erum við ekki eintóna en við erum samt að leita að þessum samhljómi sem við teljum okkur geta fundið á svona borgarafundi,“ segir Pétur. Hann segir ansi langt síðan svo öflugur borgarafundur var haldinn síðast á Vestfjörðum og er stoltur af því að Fjórðungssambandið standi fyrir stórum viðburði sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert