„Vítavert gáleysi“ af hálfu hinnar látnu

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason

Maðurinn ungi, sem ákærður hefur verið fyrir manndráp af gáleysi vegna slyss sem varð við Jökulsárlón árið 2015, neitar því að bera ábyrgð á andláti konunnar sem lést er hún varð fyrir hjólabát sem maðurinn bakkaði á hana á planinu við lónið. Krefst hann sýknu í málinu en vægustu refsingar er lög leyfa til vara.

Segir hann konuna hafa sýnt af sér mikið gáleysi, samstarfsmaður hans hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að vara hann við, vinnuveitandi hafi borið ábyrgð á ófullnægjandi öryggisaðstæðum og eftirlit hins opinbera hafi brugðist. Þetta segir hinn ákærði í greinargerð vegna málsins. Rúv greinir frá.

Slysið varð í ágúst árið 2015 og stýrði maðurinn stórum hjólabát og bakkaði honum á kanadíska fjölskyldu sem stóð á bílaplaninu við lónið. Konan, Shelagh Donovan, varð undir afturhjóli bátsins með þeim afleiðingum að hún lést. Hinn ákærði var 22 ára þegar slysið varð og var án réttinda til að stjórna bátnum að því er segir í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um málið.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í sumar en við fyrirtöku málsins 5. september skilaði verjandi málsins, Áslaug Gunnlaugsdóttir, inn greinargerð vegna málsins sem fréttastofa Rúv hefur undir höndum. Þar er rakið hvers vegna þau telja manninn ekki bera ábyrgð á andláti konunnar.

„Starfsmaður á palli var í reynd augu hins ákærða,“ segir í greinargerðinni og er þar vísað til samstarfsmanns hins ákærða sem hafi haft það hlutverk að fylgjast með hjólabátnum þegar honum var bakkað.

„Starfsmaður á palli“ ekki sinnt starfsskyldu sinni

Konan sé ekki nema 165 cm á hæð og því ómögulegt fyrir þann er stýrði hjólabátnum að sjá konuna, þess vegna hafi hann þurft að treysta á að hinn starfsmaðurinn léti vita. Að því er segir í greinargerðinni gaf „starfsmaður á palli“ merki með þumalfingri um að óhætt væri að bakka.

Hann hafi bakkað hægt og rólega af stað og numið staðar þegar hann heyrði syni hinnar látnu berja í hlið bátsins. Samstarfsmaðurinn hafi ekki kallað í talstöðina og látið vita af för hinar látnu um planið.

Í greinargerðinni eru einnig færð rök fyrir því að svo virðist sem konan hafi sjálf sýnt af sér „vítavert gáleysi“ með því að vera á bátaplaninu í akstursleið bátanna, stöðva þar og einblína á þyrlu sem var á sveimi, án þess að gæta að því að hún væri stödd á svæði þar sem akstur hjólabáta færi fram.

Málið gegn manninum verður tekið fyrir í Héraðsdómi Austurlands 3. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert