Kona látin og tveir handteknir

Lögregla er nú að störfum á vettvangi, en rannsókn málsins …
Lögregla er nú að störfum á vettvangi, en rannsókn málsins er á algjöru frumstigi. mbl.is/Golli

Kona er látin og tveir menn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir alvarlegt atvik á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur nú í kvöld. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Grímur segir rannsókn málsins á algjöru frumstigi og vinna sé nú í gangi á vettvangi, en segist að öðru leyti ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.

Sírenuvælið í lögreglubílum og tveimur sjúkrabílum fór ekki fram hjá íbúum Vesturbæjar rétt fyrir klukkan tíu í kvöld. Staðfestu sjónarvottar við blaðamann Morgunblaðsins nú í kvöld að sérsveitin hafi verið kölluð til.

Að sögn ljósmyndara mbl.is á vettvangi voru tveir lögreglubílar fyrir utan húsið undir miðnætti og lögreglumenn að störfum fyrir innan, en mennirnir verða væntanlega yfirheyrðir í nótt eða í fyrramálið.

Samkvæmt íslenskum lögum hefur lögreglan heimild til að halda mönnunum í sólarhring, en að þeim tíma loknum verður hún að fara fram á gæsluvarðhald eða láta þá lausa úr haldi. Eftir það hefur dómari sólarhring til viðbótar til að ákveða hvort hann fallist á gæsluvarðhaldsbeiðnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert