Fækkun á leikskólum

Flottir krakkar að bíða eftir strætó í sumar.
Flottir krakkar að bíða eftir strætó í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls voru 19.090 börn í leikskóla á Íslandi um síðustu áramót og hafði fækkað um 272 (-1,4%) frá fyrra ári. Sú fækkun stafar af fámennari árgöngum, því hlutfall barna sem sækir leikskóla hefur hækkað lítillega. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Alls störfuðu 5.907 í leikskólum í desember 2016 og hafði fækkað um 59 (-1,0%) frá fyrra ári en stöðugildum fækkaði um 68 (-1,3%).

Í desember 2016 voru 254 leikskólar starfandi og hafði fjölgað um þrjá frá árinu áður. Sveitarfélögin ráku 213 leikskóla og fækkaði þeim um fjóra frá fyrra ári en 41 leikskóli var rekinn af öðrum aðilum, sjö fleiri en árið áður. Flestir voru leikskólarnir árið 2009, þegar 282 leikskólar störfuðu á landinu.

Ófaglærðir eru rúmlega helmingur starfsfólks

Í desember 2016 störfuðu 1.729 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 31,9% starfsmanna við uppeldi og menntun barna, og hefur fækkað um 231 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmenn sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi voru 857 talsins. Ófaglærðir starfsmenn voru rúmlega helmingur (52,3%) starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2016, hlutfallslega lítið eitt fleiri en árið áður.

Starfsmannavelta hefur aukist úr 25,4% í 26,5% á milli ára sé horft til starfa við uppeldi og menntun. Eru þá bornir saman starfsmenn í leikskólum 1. desember 2015 og á sama tíma árið 2016. Veltan er þó aðeins minni hjá leikskólakennurum árið 2016, eða 12,2% á móti 12,9% ári áður. Á hinn bóginn hefur starfsmannavelta aukist meðal annarra starfsmanna með uppeldismenntun (úr 26,3% í 30,9%) og ófaglærðra starfsmanna við uppeldi og menntun barna (úr 33,6% í 34,0%).

Körlum fækkar meðal starfsmanna og færri börn fá sérstakan stuðning

Karlkyns starfsmönnum í leikskólum fjölgaði ár frá ári frá 2009 til 2014, þegar þeir voru 6,4% starfsmanna. Þeim hefur hins vegar fækkað sl. tvö ár og voru 338 talsins í desember 2016, 5,7% starfsmanna.

Í desember 2016 nutu 1.857 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 9,7% leikskólabarna. Börnum sem njóta stuðnings fækkaði um 122 (-6,2%) frá fyrra ári eftir mikla fjölgun frá árinu 2013 þegar 1.200 börn nutu stuðnings. Eins og undanfarin ár eru mun fleiri drengir í þessum hópi og nutu 1.200 drengir og 657 stúlkur stuðnings árið 2016.

Börn með erlent móðurmál voru 2.410 í desember 2016 og fækkaði um 25 frá fyrra ári, um 1,0%. Hlutfall barna með erlent móðurmál er þó það sama og í desember 2015, 12,6% leikskólabarna. Börnum með erlent móðurmál fækkaði síðast á milli áranna 2007 og 2008 en hefur fjölgað ár frá ári síðan þá. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 933 börn pólsku að móðurmáli í desember 2016. Næstflest börn hafa ensku að móðurmáli (233 börn) og því næst koma spænska (107 börn) og filippseysk mál (105 börn).

Í desember 2016 voru 1.206 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang, 6,3% leikskólabarna. Börnum með erlent ríkisfang fjölgaði um 41 (3,5%) frá fyrra ári og hefur fjölgað ár frá ári frá 2001, þegar þessum upplýsingum var fyrst safnað, að undanskildum árunum 2014–2015 þegar þeim fækkaði um 69.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert