Íslandsdvölin tók óvænta stefnu

Carlos var búinn að ferðast rúma 600 kílómetra þegar hjólið …
Carlos var búinn að ferðast rúma 600 kílómetra þegar hjólið hans brotnaði. Ljósmynd/Carlos Sanchis Collado

Spánverjinn Carlos Sanchis Collado hefur frá því í byrjun september ferðast hringinn um landið í hjólastól sem er bæði handknúinn og rafmagnsknúinn.

Bróðir Carlos slóst í för með honum og var upprunalegt markmið bræðranna að hjóla hringinn um Ísland á þremur vikum. Þeir komust hins vegar í hann krappan í Skaftafelli í vikunni þar sem framhjól á stól Carlos brotnaði með þeim afleiðingum að stóllinn fór í tvennt.

Carlos varð fyrir mænuskaða þegar hann lenti í bílslysi 18 ára gamall og hefur notað hjólastól síðan í sínum daglegu athöfnum. Carlos hefur áhuga á ferðalögum og er mikill íþróttamaður. Hann sameinar þessi tvö áhugamál með því að ferðast um heiminn og blogga um það sem verður á vegi hans, meðal annars til þess að hvetja fólk með hreyfihömlun til að ferðast og njóta lífsins.

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, rakst á mynd af Carlos með brotna hjólið á samfélagsmiðlum og var fljótur að grípa til sinna ráða. „Sjálfsbjörg rekur hjálpartækjaleigu og sem formaður samtakanna fannst mér ekki annað koma til greina en að koma nýjum stól til hans,“ segir Bergur í samtali við mbl.is.

Carlos og bróðir hans komust því leiðar sinnar, en atvikið gerði það að verkum að þeim tókst ekki að fara allan hringveginn hjólandi líkt og lagt var upp með í upphafi.

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, færði Carlos nýjan stól frá …
Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, færði Carlos nýjan stól frá hjálpartækjaleigu Sjálfsbjargar. Ljósmynd/Bergur Þorri Benjamínsson

Hvalaskoðun, þyrluflug og norðurljós

Berg langaði að gera upplifun bræðranna af Íslandsheimsókninni sem besta, þrátt fyrir svekkelsið sem bræðurnir upplifðu við að ná ekki að klára sett markmið. „Hér er á ferðinni einstaklingur sem er búinn að takast hressilega á við íslenska náttúru. Náttúran vann, en ég vildi athuga hvort ferðaþjónustan á Íslandi væri ekki tilbúin að koma til móts við hann?“ segir Bergur.  

Hann leitaði til ferðaþjónustufyrirtækja á Facebook sem voru fljótir að bregðast við. Meðal fyrirtækja sem hafa boðið bræðrunum í heimsókn eru Aurora Reykjavík og Bláa lónið. „Þeir fóru í hvalaskoðun í morgun og eru á leiðinni í þyrluflug seinna í dag,“ bætir Bergur við.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og er dagskrá bræðranna orðin ansi þétt fram að brottför, næstkomandi sunnudag. Bergur segir það mikið gleðiefni hversu vel íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi tekið í beiðni hans um að lífga upp á Íslandsferð bræðranna.

Carlos á ferð sinni um Ísland.
Carlos á ferð sinni um Ísland. Ljósmynd/Carlos Sanchis Collado
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert