Ríkið sýknað í skötuselsmáli

Íslenska ríkið var sýknað af skaðabótakröfu Útgerðarfélagsins Glófaxa ehf. í …
Íslenska ríkið var sýknað af skaðabótakröfu Útgerðarfélagsins Glófaxa ehf. í dag. mbl.is/Ófeigur

Íslenska ríkið var í dag sýknað af skaðabótakröfu Útgerðarfélagsins Glófaxa fyrir Hæstarétti. Félagið átti aflahlutdeild í skötusel og krafðist þess að viðurkennt yrði að ríkið bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar úthlutunar á aflamarki í skötuseli fiskveiðiárin 2009/2010, 2010/2011 og 2011/2012. 

Við breytingu á lögum um stjórn fiskveiða var bætt við bráðabirgðaákvæði sem heimilaði ráðherra úthlutun á aflaheimildum í skötusel umfram heildarafla sem úthlutað hafði verið samkvæmt lögunum. Félagið taldi lagasetninguna og framkvæmd á grundvelli hennar hafa brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti eignar- og atvinnurétti sínum, til að fá úthlutað án endurgjalds aflamarki af viðbótarveiðiheimildunum í samræmi við aflahlutdeild sína í skötusel. 

Í dómi Hæstaréttar kom fram að með framangreindri viðbótarúthlutun á aflamarki hefði ekki falist breyting á hlutdeild Útgerðarfélagsins Glófaxa í afla og hefði félagið því ekki sætt takmörkunum vegna lagabreytingarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert