Segir réttindi í algeru uppnámi

Þúsundir launamanna hafa frá því í sumar óskað eftir að …
Þúsundir launamanna hafa frá því í sumar óskað eftir að viðbótariðgjald launagreiðenda, sem hækkar í 3 skrefum, fari í séreign. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir liggur eftir stjórnarslitin að ekki verður leyst með lagasetningu á næstunni úr djúpstæðum ágreiningi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins við Fjármálaeftirlitið um hvort flytja má tilgreinda séreign sjóðfélaga lífeyrissjóða frá þeim sjóði sem tekur við iðgjaldi til skyldutryggingar.

ASÍ og SA höfðu reiknað með því að leyst yrði úr þessari deilu með frumvarpi fjármálaráðherra á haustþinginu en það var tilbúið sl. vor.

Þorbjörn Guðmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, segir mjög slæmt að þetta skuli dragast svona og nú sé orðið líklegt að ástandið verði óbreytt næstu mánuði.

Rætt í miðstjórn í gær

„Við höfðum fyrirheit fráfarandi ríkisstjórnar og fjármálaráðherrans um að þetta yrði eitt af fyrstu málum á þingi. Nú er þetta orðin fullkomin óvissa vegna þess að ríkisstjórnin er fallin,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um þá stöðu sem upp er komin. Ræða átti þetta mál í miðstjórn ASÍ í gær.

Eins og fram hefur komið tilkynnti FME í sumar að sjóðfélagar hefðu fullan rétt á að ráðstafa iðgjaldinu til annarra en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi þeirra vegna samtryggingar. Því mótmæltu ASÍ og SA. Sjö lífeyrissjóðir starfa á samningssviði ASÍ og SA.

,,Það er alveg ljóst að samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA var það áskilið að þörf væri á því að setja um þetta lög. Nú hefur Fjármálaeftirlitið tekið upp mjög harða túlkun á þessu og í reynd túlkað þetta með þeim hætti að það sé búið að taka úr höndum Alþýðusambandsins samningsrétt um lífeyrismál,“ segir Gylfi.

Hann gagnrýnir túlkun FME og segir hana ekki ganga upp vegna þess að lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveði á um lágmarkstryggingaverndina. ASÍ og SA hafi frelsi til að semja um lífeyrisréttindi sem eru umfram þau lágmarksréttindi sem lögin fjalla um.

,,Þetta er í sjálfu sér ekki deila um vörslu fjár. Við höfum áhyggjur af því hvernig halda á utan um innheimtuna. Lífeyrissjóður þarf t.d. að vita hvort hann á að innheimta hjá fyrirtækjum sem ekki greiða á gjalddaga 12% eða 15,5%. Það má ekki vera einhver vafi um þetta.“

Gylfi segir að sér sé nokkuð sama um með hvaða hætti frjálsir sjóðir eða aðrir lífeyrissjóðir haga þessum málum. ,,En við teljum okkur ennþá hafa forræði um að semja um með hvaða hætti lífeyrissjóðir á samningssviði Alþýðusambandsins vinna að því sem snýr að réttindum umfram lágmarkið.“

Afleiðingar þess geta orðið miklar að lagasetning er ekki í sjónmáli og ágreiningurinn er óleystur. ,,Nú er ríkisstjórnin fallin og þessi lög verða ekki sett og það er ljóst að það er mjög mikil lagaleg óvissa um málið. Í samningi Alþýðusambandsins um þetta segir að ef ekki næst samkomulag um setningu laga til þess að gera þetta kleift, þá muni iðgjaldið einfaldlega renna til samtryggingar,“ segir Gylfi. ,,Það er því búið að setja þetta mál í algjört uppnám,“ bætir hann við.

Margir gætu staðið frammi fyrir því að missa þessi réttindi

Gylfi segist ekki geta svarað því hér og nú hver niðurstaðan verði. ,,Reyndar gerir túlkun FME það að verkum að mér finnst mjög erfitt fyrir okkur að vera í forsvari fyrir að hún verði við lýði, sem leiðir til þess að fjöldi manns gæti staðið frammi fyrir því að missa þessi réttindi frá sér einfaldlega vegna þess að enginn muni geta fylgst með því hvort [framlagið] er innheimt eða ekki. Það er verið að setja þessi réttindi í algjört uppnám því við megum ekki beita þeim eftirfylgniaðferðum sem kjarasamningur okkar hefur tryggt með mjög góðum árangri.“

Annast innheimtu fyrir aðra

Þorbjörn tekur í sama streng að ágreiningurinn á milli ASÍ og SA annars vegar og FME hins vegar sé með öllu óleystur. Hann snúist í grundvallaratriðum um hvort samtökin á vinnumarkaði geti bundið þessa tilgreindu séreign við samtryggingarsjóð með kjarasamningi. ,,Það eru auðvitað minni líkur á því núna að frumvarp komi fram í haust til afgreiðslu,“ segir hann.

Eins og staðan er í dag séu samtryggingarsjóðirnir að verða hálfgerðir innheimtuaðilar fyrir einhverja aðra vörsluaðila.

Mega flytja séreign

» Einstaklingum á almenna markaðinum er heimilt að ráðstafa að hluta eða fullu auknu framlagi launagreiðenda í lífeyrissjóði í tilgreinda séreign.
» Fjármálaeftirlitið segir að sjóðfélagar ráði sjálfir í hvaða séreignarsjóð þeir vilja ráðstafa þessu viðbótariðgjaldi.
» SA og ASÍ eru ósátt við þessa túlkun og hafa gengið út frá að greitt verði úr deilunni með stjórnarfrumvarpi í haust, sem samkomulag hafi náðst um við stjórnvöld.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert