Sjúkdómahættan fer vaxandi

Hamrað er á mikilvægi þess að börn fari í mikilvægar …
Hamrað er á mikilvægi þess að börn fari í mikilvægar sprautur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef þátttaka í bólusetningum er ekki betri en skráningar benda til getum við lent í vanda og sjúkdómahættan fer vaxandi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið.

Samkvæmt skýrslu sem sóttvarnalæknir birti í gær var þátttaka í almennum bólusetningum 12 mánaða og fjögurra ára barna á Íslandi í fyrra talsvert lakari en árið á undan. Hann segir að ef fram haldi sem horfi geti blossað hér upp sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Í því samhengi má nefna að nú geisar mislingafaraldur í Evrópu og gætu stök tilfelli sést hér ef þátttöku hrakar. Við þessu þurfi því að bregðast. Tólf mánaða eru börn sprautuð til þess að fyrirbyggja kíghósta, stífkrampa, barnaveiki, lömunarveiki, Hib-bakteríusýkingu og pneumókokkasýkingar. Fjögurra ára sprautan er svo gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta.

95% hlutfall væri ásættanleg mæting

Sé sprautan við fjögurra ára aldur tekin sem dæmi þá var mæting í hana á síðasta ári 85% að meðaltali, þar af 87% á Vestfjörðum. Á Suðurnesjum fór þetta hlutfall hins vegar niður í 79% og 80% á Suðurlandi. Á höfuðborgarsvæðinu var mætingin 86%. Ásættanlegt væri hins vegar að hlutfallið væri um 95%, segir Þórólfur Guðnason. Sú er líka raunin viðvíkjandi mætingu í bólusetningu við þriggja og fimm mánaða aldurinn.

Gera þarf betur

Ástæður fyrir minni þátttöku eru ekki ljósar, segir sóttvarnalæknir, en mestar líkur eru á að innköllunarkerfi heilsugæslunnar fyrir börn á þessum aldri sé ekki í lagi, að mati sóttvarnalæknis.

„Oft hendir til dæmis um eins árs aldurinn að börn séu veik þegar þau og foreldrarnir eru boðuð í sprautu og getur gleymst að hafa samband aftur. Þetta er ein hugsanleg skýring sem mér kemur í hug. Að minnsta kosti þarf að gera betur í öllu fyrirbyggjandi starfi og þetta förum við betur yfir með starfsfólki heilsugæslunnar á næstunni,“ sagði Þórólfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert