Aðalmeðferðin hefst í janúar

Lárus Welding og verjandi hans. Mynd úr safni.
Lárus Welding og verjandi hans. Mynd úr safni. mbl.is/Þórður

Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis hefst 17. janúar. Þetta var ákveðið þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fram kom í máli saksóknara að gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin taki styttri tíma en í sambærilegum málum hinna bankanna sem féllu í hruninu.

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði fyrir dómi að ástæða þess væri sú að málflutningurinn af hálfu saksóknara gæti tekið mið af þeim dómum Hæstaréttar sem fallið hafa í sambærilegum málum. Þó er gert ráð fyrir tveimur og hálfri viku. Áætlað er að ljúka aðalmeðferð 2. febrúar.

Ákærðir í mál­inu eru Lár­us Weld­ing, fyrr­um banka­stjóri Glitn­is, Jó­hann­es Bald­urs­son, fyrr­um fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, auk þeirra Jónas­ar Guðmunds­son­ar, Val­g­arðs Más Val­g­arðsson­ar og Pét­urs Jónas­son­ar. Sak­sókn­ari í mál­inu er Björn Þor­valds­son og dóm­stjóri er Arn­grím­ur Ísberg. Pétur mætti einn ákærðu fyrir dóm í dag.

Engin gögn voru lögð fram í þinghaldinu í dag en 11. desember fer fram þinghald þar sem málflytjendur ljúka gagnaöflum, eins og það var orðað af dómara. Þá rennur út frestur til að skila greinargerðum.

Fram hefur komið að vitnalisti ákæruvaldsins telji 73 nöfn. Saksóknari sagði fyrir dómi að listinn verði styttur nokkuð á næstunni. Þörf muni ekki krefja að svo margir verði kallaðir til vitnis.

Mennirnir fimm eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun en Lárus að auki fyrir umboðssvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert