Bullum, gerum grín og stríðum hvert öðru

Gaman saman. Jogvan, Guðrún og Sigga hittust í hádeginu í …
Gaman saman. Jogvan, Guðrún og Sigga hittust í hádeginu í gær til að rifja upp brandarana fyrir kvöldið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinskapurinn milli þeirra Siggu, Jogvans og Guðrúnar hefur vaxið með samstarfi þeirra í söng og þau hittast oft í hádeginu til að hlæja. Þau ætla að skemmta gestum sínum í kvöld í þrítugasta sinn, og hlæja mikið. Þau skemmta sér sjálf manna best á tónleikunum þar sem þau segja sögur og gera grín hvert að öðru.

Við höfum rosalega gaman af þessu sjálf, það skilar sér alltaf til tónleikagesta. Auk þess erum við ekki bara að syngja heldur göntumst við heilmikið á milli laga, bullum og gerum grín að okkur sjálfum og stríðum hvert öðru. Það er hlegið svo mikið að fólk fer nánast með hláturkrampa í maganum af tónleikunum. Ég held að þetta samspil tóna og tals sé það sem höfðar til fólks,“ segir Sigríður Beinteinsdóttir söngkona þegar hún er spurð að því hvað geri það að verkum að tónleikar þar sem þau þrjú, hún, Guðrún Gunnarsdóttir og Jogvan Hansen, koma fram saman ganga svo vel sem raun ber vitni, en þrítugustu tónleikar þeirra verða í kvöld í Salnum í Kópavogi.

„Okkur finnst auðvitað frábært hvað þetta hefur gengið vel, fólk kemur aftur og aftur til að hlusta á okkur syngja, en það kemur líka til að heyra okkur segja sögur af okkur sjálfum. Jogvan gerir heilmikið grín að okkur gömlu kellunum, því hann er náttúrlega miklu yngri en við Guðrún. Þetta fer út í allskonar vitleysu og stundum verður þetta hálfgerð revía.“

Lög sem þær Guðrún héldu upp á þegar þær voru stelpur

Sigga segir að engir tónleikar séu eins hjá þeim.

„Það eina sem við göngum út frá er að við ætlum að hafa gaman og að við ætlum að hlæja. Við höfum aðeins breytt dagskránni núna, skiptum nokkrum lögum út fyrir ný. Okkur fannst nauðsynlegt að breyta lagavalinu aðeins af því við erum búin að gera þetta svo oft, það gefur okkur nýtt líf að fá fersk lög inn. Einnig er það nauðsynlegt í ljósi þess að margir gestir eru að koma í þriðja eða fjórða sinn. Fólki finnst svo gott að fá að hlæja.“

Sigga segir að lögin á dagskránni séu lög sem hún og Guðrún héldu upp á þegar þær voru ungar stúlkur.

„Þetta eru allskonar íslensk gömul og góð lög, til dæmis lög með Elly Vilhjálms, og svo syngur Jogvan gömul lög sem fólk þekkir í flutningi Ragga Bjarna. Við erum líka með gömul lög eins og Kveiktu ljós, með blönduðum kvartett frá Siglufirði, en við Guðrún elskuðum báðar það lag í bernsku,“ segir Sigga og bætir við að þau syngi öll sóló á tónleikunum en líka saman, ýmist tvö, tvær eða þrjú. Þetta sé bland í poka hjá þeim.

Þau eru bara svo yndisleg

Sigga segir að gestir þeirra á tónleikunum, sem kannski mætti frekar kalla söngskemmtun, séu á öllum aldri, vissulega komi fólk sem þekkir þessi lög frá fyrri tíð, en líka yngra fólk, því þau þrjú séu að bulla um daginn og veginn og fólki á öllum aldri finnist það skemmtilegt. Auk þess hafi yngra fólk líka gaman af gömlum lögum.

Vinskapurinn milli þeirra þriggja, Siggu, Jogvans og Guðrúnar, hefur sannarlega vaxið með þessu samstarfi en þau hafa þekkst lengi í gegnum söng og tónlist.

„Við hittumst oft í hádeginu bara til að hlæja og hafa gaman. Við höfum líka farið nokkrum sinnum út á land með þetta prógramm og það eru yndislegar ferðir sem tengja okkur þrjú enn frekar saman sem manneskjur.

Við náum vel saman þetta þríeyki, við erum öll alltaf svo spennt þegar við erum að fara að halda þessa tónleika, okkur finnst þetta svo gaman. Það er alltaf gaman að syngja á tónleikum, en það er alveg extra skemmtilegt með þeim tveim, þau eru bara svo yndisleg bæði tvö, Guðrún og Jogvan.“

Við eigum samleið

Jogvan Hansen, Sigga Beinteins og Guðrún Gunnarsdóttir halda tónleika í kvöld, föstudaginn 22. sept., í Salnum í Kópavogi kl. 20. Söngdagskráin þeirra, Við eigum samleið, hefur gengið fyrir fullu húsi í á þriðja ár og nú hafa þau endurnýjað stærstan hluta dagskrárinnar og bætt við mörgum lögum sem ekki heyrast oft í lifandi flutningi, t.d lög eins og: Í Rökkurró, Fjórir kátir þrestir, Án þín, Enn birtist mér í draumi o.fl.

Ekki aðeins fá gestir að njóta þess að hlusta á þau syngja skemmtileg og falleg lög, heldur segja þau líka sögur sem tengjast lögunum sem og sögur úr eigin ranni.

Með þeim Jogvani, Guðrúnu og Siggu leikur hljómsveit undir stjórn Karls Olgeirssonar. Miðasala er á salurinn.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert