Endurupptaka Geirfinnsmálsins peningasóun

Jón Gunnar segist telja þau seku í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu …
Jón Gunnar segist telja þau seku í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafa hlotið sinn dóm.

Jón Gunnar Zoëga, lögmaður og réttargæslumaður Valdimars Olsen sem sat saklaus í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar, segir það peningasóun að taka Guðmundar- og Geirfinnsmálin upp að nýju fyrir dómstólum. Að sínu mati sé  ljóst að þau seku í málinu hafi verið dæmd. Þetta kom fram í þættinum Speglinum á Rás 1 í dag.

Kveðst Jón Gunnar hafa enga trú á að niðurstaðan breytist með nýrri dómsmeðferð.

„Það eru 15 dómarar búnir að fara yfir þetta mál og allir sammála um niðurstöðuna. Ég get ekki séð að það breytist neitt. Erla Bolladóttir fór fram á endurupptöku en hún var aldrei dæmd fyrir manndráp heldur aðeins meinsæri gegn fjórmenningunum og þátttöku í ráni frá Pósti og síma. Það er rétt að geta þess að þetta unga fólk voru engir englar. Þetta var landsliðið í smáglæpum á Íslandi og sakavottorð Sævars þegar hann var tekinn voru þrjár síður. Auðvitað geta menn leiðst á rétta braut en ég tel fráleitt að eyða peningum í þetta,“ sagði hann.

100 daga saklausir í gæsluvarðhaldi

Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru nú í endurupptökuferli. Hinir dæmdu segja að þrýstingur frá lögreglu hafi orðið til þess að þeir játuðu. Hluti þeirra var einnig dæmdur fyrir að bendla fjóra saklausa menn við málið sem sátu lengi í gæsluvarðhaldi af þeim sökum.

Það var í febrúar 1980 sem dómur féll í Hæstarétti í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Úrskurðaði Hæstiréttur að  Sævar Marinó Ciesielski skyldi dæmdur í 17 ára fangelsi, Kristján Viðar Viðarsson í 16 ára fangelsi, Tryggvi Rúnar Leifsson í 13 ára fangelsi, Guðjón Skarphéðinsson í 10 ára fangelsi, Erla Bolladóttir í 3 ára fangelsi og Albert Klahn Skaptason í 12 mánaða fangelsi. 

Tryggvi Rúnar var eingöngu dæmdur fyrir aðild að morðinu á Guðmundi og Guðjón eingöngu fyrir aðild að morði Geirfinns. Þá var Albert dæmdur fyrir að reyna að afmá sönnunargögn í máli Guðmundar og Erla fyrir rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu. Þá voru fleiri brot hluti af dómi sumra þeirra.

Meðan á rannsókn á Geirfinnsmálinu stóð sátu fjórir menn saklausir í 100 daga gæsluvarðhaldi árið 1976, þeir Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson, Valdimar Olsen og Einar Bollason.

Gefur lítið fyrir fullyrðingar um harðræði

Jón Gunnar gefur lítið fyrir að þrýstingur frá lögreglunni hafi valdið þessum röngu sakargiftum eða að lögregla hafi beitt harðræði við yfirheyrslur eins og haldið hefur verið fram.

„Það er af og frá að þetta standist. Erla Bolladóttir var utan fangelsis vegna góðvildar lögreglunnar – hún átti lítið barn og var þess vegna sleppt. Hún hringir í dómarann og segir að það séu alltaf einhverjir menn að hringja í sig og hóta sér ef hún kjafti frá. Þegar dómarinn spyr hana hvers vegna hún haldið að þetta sé segir hún að það hljóti að vera út af Geirfinnsmálinu. Þá er hún tekin til yfirheyrslu og spurð um þetta. Þar ber hún Valdimar Olsen og hina þrjá, og fleiri reyndar, þeim sökum að eiga þátt í þessu. Lögreglan gat því ekki beitt neinum þrýstingi á hana, því hún var ekki einu sinni í fangelsi,“ hefur Spegillinn eftir Jóni Gunnari.

Hann telur mikið áhyggjuefni hjá sér ef niðurstaða Hæstaréttar nú yrði önnur en áður. „En það er alveg sama þó að niðurstaðan í Hæstarétti verði sú sama og áður. Fólk vill áfram trúa því að þarna hafi verið saklaus ungur maður tekinn og pyntaður til sagna, sem er alfarið rangt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert