Fjármagnið minna en ekkert

Landspítalinn í Fossvogi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gerir ráð fyrir …
Landspítalinn í Fossvogi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gerir ráð fyrir að heilbrigðismálin verði aftur ofarlega á baugi í kosningabaráttunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það fjármagn sem rennur til Landspítalans er minna en ekkert þegar öll kurl eru komin til grafar. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum pistli sínum á vef spítalans.

Gerir Páll sviptingar á stjórnmálasviðinu að umræðuefni og segir að gera megi ráð fyrir að heilbrigðismálin verði enn ofarlega á baugi í kosningabaráttunni sem er framundan.

„Verkefni okkar á spítalanum er að gera almenningi og fulltrúum þeirra, stjórnmálamönnum, grein fyrir stöðu heilbrigðismála eins og þau snúa að Landspítala,“ segir Páll. Fram hafi komið þegar heilbrigðisfrumvarpið, sem nú er í uppnámi, var lagt fram að að 13 milljarðar myndu renna aukalega í heilbrigðisþjónustuna.

„Mátti skilja á mörgum að þarna væri um að ræða innspýtingu í kerfið. Svo er hins vegar ekki nema að hluta. Þarna er að miklum hluta um að ræða fé til að mæta verðlagsþróun og launahækkunum en einnig fé til annarra hluta kerfisins. Það sem rennur til Landspítala er hins vegar minna en ekkert þegar öll kurl eru til grafar komin, sem er alvarlegt.“

Áður hafi verið farið inn í óvissuvetur með ókláruð fjárlög og óljósa stefnu stjórnmálaflokkanna í heilbrigðismálum. Engu að síður sé ljóst að næstu vikur og mánuðir muni reynast afdrifaríkur tími fyrir spítalann og heilbrigðiskerfið allt.

Segir Páll að af hálfu Landspítalans liggi fyrir ítarleg greining á fjárþörf spítalans til næstu ára sem ekki hafi verið hrakin. „Við fyrstu greiningu metum við svo að það vanti  um 3.000 m.kr. til að viðhalda óbreyttum rekstri á spítalanum á árinu 2018 og tryggja framgang þeirra verkefna sem við sinnum nú þegar. Þá vantar 1.200 m.kr. til viðbótar í bráðnauðsynlegt viðhald á húsnæði spítalans, 500 m.kr. til 1. áfanga endurbóta á húsnæði geðsviðs og 1.000 m.kr. aukalega í nauðsynleg tækjakaup.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert