Fresta viðgerð á Herjólfi

Vegagerðin segir, að í ljósi þess að höfnun norsku siglingastofnunarinnar …
Vegagerðin segir, að í ljósi þess að höfnun norsku siglingastofnunarinnar á undanþágubeiðni fyrir Röst ásamt ítrekuðum seinkunum á varahlutum í Herjólf hefði leitt af sér ferjusambandsleysi við Vestmannaeyjar í allt að því tvær vikur, er eini augljósi valkosturinn að fresta viðgerðum á Herjólfi þar til síðar í haust. mbl.is/Styrmir Kári

Unnið er að því að Herjólfur hefji svo fljótt sem kostur er aftur siglingar milli Vestmannaeyja og lands eftir að ljóst var að varahlutir í gír skipsins berast ekki fyrr en í fyrsta lagi undir lok september og að ekki fengist undanþága fyrir norsku ferjuna Röst til að sigla í Landeyjahöfn í október. Herjólfur verður tilbúinn til siglinga fyrir þann tíma.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir ennfremur, að síðan í vikubyrjun hafi Herjólfur verið í viðgerð í Hafnarfirði og svipað skip, norska ferjan Röst, hafi sinnt siglingum í Landeyjahöfn á meðan. Þegar í ljós kom að ekki fengist leyfi fyrir Röst til siglinga í Þorlákshöfn og ekki í Landeyjahöfn eftir 30. september var reynt að flýta sem kostur er viðgerð á Herjólfi að sögn Vegagerðarinnar.

„Eimskip er rekstraraðili Herjólfs og samningsbundinn Vegagerðinni í þurrleigusamningi til að annast allan  rekstur skipsins og sinna viðhaldi þess og viðgerðum. Undirverktaki erlendis hafði lofað Eimskip því að varahlutirnir í gírinn yrðu tilbúnir þann 15. september en nú hefur komið í ljós að það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi í lok mánaðar.

Reynt var að fá undanþágu fyrir siglingar Rastar í Landeyjahöfn fyrstu dagana í október en norska siglingastofnunin hafnaði þeirri beiðni eiganda skipsins í gær.

Því var sú ákvörðun tekin í beinu framhaldi af því að fresta viðgerðinni og gera Herjólf tilbúinn til siglinga þannig að ekki kæmi til þess að hlé yrði á siglingum til Vestmannaeyja. Starfsmenn Eimskips og viðgerðarmenn á þeirra vegum, sem koma erlendis frá, eru þegar byrjaðir á þessu verki.

Vegagerðin hefur þegar hafið leit að öðru skipi sem mun hafa heimild til að sigla á hafsvæði B og geti þannig siglt í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn eftir 1. október, þannig að hægt verði að ljúka síðar við viðgerð Herjólfs,“ segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert